Aðgerðir hertar á Norðurlöndunum

Tillögur um hertar sóttvarnaaðgerðir í Danmörku kveða á um að …
Tillögur um hertar sóttvarnaaðgerðir í Danmörku kveða á um að næturlífinu verði lokað og grímuskylda verði tekin upp á veitingastöðum. AFP

Allt bendir til þess að hertar sóttvarnaaðgerðir taki gildi í Danmörku á föstudag en metfjöldi smita hefur greinst síðustu daga. Farsóttanefnd fundar nú um stöðuna en tillögur um hvernig hefta megi útbreiðslu smita liggja nú þegar fyrir.

Danski fréttamiðillinn TV2 greinir frá þessu.

Hingað til hefur danska ríkisstjórnin fallist á tillögur nefndarinnar og þykir því líklegt að þær sem hafa nú verið í umræðunni verði samþykktar en þær eru í nokkrum skrefum.

Frá 10. desember hefur verið ráðlagt að næturlífinu verði lokað, afgreiðslutími veitingastaða styttur til miðnættis og gestum veitingastaða verði gert að bera grímur þegar þeir eru ekki í sætum sínum. Þá munu samkomutakmarkanir miðast við 50 manns á standandi viðburðum.

Tillögurnar kveða einnig á um takmarkanir á skólahaldi en það mun þó líklega ekki taka gildi fyrr en um og eftir miðjan mánuðinn. Til skoðunar er að loka leik- og grunnskólum frá 15. desember til 4. janúar.

Metfjöldi smita í Noregi

Þá hafa Norðmenn einnig þurft að grípa til hertari aðgerða en greint var frá því í morgun að nýjar sóttvarnareglur muni taka þar gildi á miðnætti í kvöld. Síðasta sólarhring greindust alls 5.143 ný smit sem er hæsta tala í þá veru frá upphafi faraldursins.

Í nýju reglunum í Noregi er kveðið á um eins metra fjarlægðarregluna og fjöldatakmarkanir, sem ná frá 10 upp í 200 manns eft­ir því hver vett­vang­ur­inn er, 10 manna regl­an gild­ir um gest­kom­end­ur á heim­ili, en þó er leyfi­legt að bjóða í eitt skipti yfir hátíðirn­ar allt að 20 manns heim, að því gefnu að metr­inn sé þar á milli.

Grímu­skylda verður einnig um allt land þar sem ekki tekst að halda lág­marks­bili, veit­inga­hús munu aðeins mega veita gest­um áfengi á borð og á ný verður ekki leyfi­legt að selja áfengi eft­ir miðnætti.

Svíar herða einnig

Svíar hyggjast einnig herða sóttvarnaaðgerðir í varúðarskyni en þeir hafa ekki verið þekktir fyrir að grípa til umfangsmikilla aðgerða. Landsmenn eru hvattir til að bera grímur í almenningssamgöngum og einnig hafa bólusetningapassar verið í umræðunni.

Þá munu atvinnurekendur bjóða starfsmönnum upp á þann möguleika að vinna heima. Háskólar mega áfram kenna nemendum sínum á skólasvæðinu en ráðlagt er gegn stórum samkomum.

Þá hefur almenningur verið hvattur til þess að halda að sér höndum hvað varðar félagslegar samkomur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert