Þýskur karlmaður hefur verið dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás í garð átta karlmanna. Maðurinn, sem er menntaður rafvirki, kynntist fórnarlömbum sínum á netinu og bauð þeim í heimsókn hvar hann svo á eldhúsborði sínu framkvæmdi skurðaðgerð á kynfærum þeirra.
Í aðgerðunum voru eistu mannanna fjarlægð og þeim því næst fargað.
Vegna laga um persónuvernd er maðurinn í þýskum fjölmiðlum einungis sagður heita Horst B. og er hann 67 ára gamall. Hann er sagður hafa búið sér til notendaaðgang á spjallsíðu fyrir fólk sem aðhyllist sadómasókískt samband.
Þar auglýsti Horst B. í fyrstu eftir fólki sem væri reiðubúið til að borga sér fyrir kynlífsþjónustu en fljótlega hóf hann að bjóða upp á raflostmeðferð gegn gjaldi og var þá rafmagni óspart hleypt á kynfæri og endaþarm.
Á sumarmánuðum árs 2018 sagðist maðurinn svo vera læknismenntaður og hóf þá að auglýsa eftir fólki sem væri reiðubúið til að gangast undir skurðaðgerð á kynfærum sínum. Tímabilið júlí 2018 til mars 2020 hitti hann alls átta karlmenn í þessum tilgangi. Var þeim boðið heim til Horst B. hvar þeir svo á einhverjum tímapunkti lögðust undir hnífinn á eldhúsborði heimilisins.
Þar voru eistun fjarlægð, þeim fargað og mennirnir því næst útskrifaðir. Upp komst um skurðaðgerðir rafvirkjans þegar einn þessara manna veiktist alvarlega í kjölfar aðgerðar og lést skömmu síðar. Lík mannsins fannst ofan í kassa sem skilinn var eftir á víðavangi og leiddi rannsókn lögreglu að lokum til handtöku Horsts B.
Meðferð málsins fyrir dómi leiddi í ljós ástæður þess að mennirnir ákváðu að leita til rafvirkjans. Sagðist meðal annars einn þeirra vilja lifa sem geldingur og því hafi hann ákveðið að gangast undir aðgerðina, annar sagði aðgerðina lið í að vinna bug á klámfíkn sinni og enn annar sagðist vilja lifa lífi sínu án karlkyns kynfæra.
Sjálfur sagðist Horst B. hafa boðið upp á kynlífsþjónustu, raflostmeðferð og að lokum kynfæraaðgerð til að greiða fyrir útför eiginkonu sinnar og standa undir reikningum heimilisins.
Í fyrstu var Horst B. ákærður fyrir manndráp og að hafa ekki komið hinum látna til bjargar. Saksóknarar breyttu síðar ákærunni í stórfellda líkamsárás. Við málsmeðferð neitaði Horst B. að bera ábyrgð á dauða mannsins.