Rússar eigi rétt á að verja öryggi sitt

Vladimir Pútín t.h. á blaðamannafundi í dag ásamt forsætisráðherra Grikklands, …
Vladimir Pútín t.h. á blaðamannafundi í dag ásamt forsætisráðherra Grikklands, Kyriakis Mitsotakis t.v. AFP

Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, ræddi við fjölmiðla um fund sinn með Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrr í dag. Sagði hann Rússa eiga rétt á því að „verja öryggi sitt“ en mikil spenna hefur myndast á landamærum Úkraínu þar sem Rússar eru sakaðir um að undirbúa innrás í landið.

Forsetarnir tveir hittust á fjarfundi í gær og sagði Biden að Rússar myndu þurfa að mæta hörðum efnahagslegum aðgerðum af hendi vestrænna ríkja ef þeir hæfu innrás í Úkraínu.

Fundur leiðtoganna tveggja var skipulagður í þeim tilgangi að róa ástandið við landamæri Rússlands og Úkraínu en Rússar hafa komið fyrir um 100 þúsund hermönnum við landamæri ríkjanna.

Réttur Rússa til að verja sig

Pútín ræddi við fjölmiðla ásamt forsætisráðherra Grikklands á blaðamannafundi í dag. AFP fréttastofan hefur þá eftir honum að „Rússland er með friðsama utanríkisstefnu en áskilur sér þeim rétti að vernda öryggi landsins.“

Hann neitaði að tjá sig um það hvort hermenn Rússa kæmu til með að fara yfir landamæri Úkraínu en sagðist hann hafa miklar áhyggjur af því að Atlantshafsbandalagið (NATO) færði sig nær og nær Rússum. En Úkraína er í viðræðum um að ganga í Atlantshafsbandalagið.

„Við getum ekki annað en haft áhyggjur af mögulegri inngöngu Úkraínu í NATO. Ljóst er að samhliða inngöngu kæmu til Úkraínu hersveitir og -stöðvar ásamt vopnum inn í landið sem væri ógn við Rússland.“

Framganga NATO til austurs hafi ávallt verið viðkvæmt mál fyrir Rússa. „Þetta er grundvallarforsenda þess að Rússar tryggi öryggi sitt,“ sagði hann einnig.

Þrátt fyrir að Pútín og Biden hafi ekki verið á sama máli hvað varðar málefni Rússlands og Úkraínu segir Pútín að viðræðurnar hafi verið „uppbyggilegar“ og að þeir komi til með að halda samtalinu áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert