Joe Biden, foseti Bandaríkjanna, mun ræða við Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu símleiðis í dag um stöðuna á landamærum Úkraínu og Rússlands og fullvissa hann um stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu.
Biden varaði Rússa nýlega við að gripið yrði til viðskiptaþvingnanna sem aldrei fyrr, ráðist Rússar inn í Úkraínu.
Viðvörun Bidens kom aðeins degi eftir að hann fundaði í fjarfundabúnaði með Vladímír Pútín, forseta Rússlands, um spennu á landamærum landanna tveggja.
Eftir að Biden hefur rætt við Zelensky mun hann hringja í leiðtoga níu Atlantshafsbandalagsþjóða í Austur-Evrópu, þeirra á meðal Póllands og Eystrasaltsríkjanna, og ræða fund sinn með Pútín, er kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu.
Biden sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær að hann hafi, á fundi sínum með Pútín, verið skýr varðandi efnahagslegar afleiðingar fyrir Rússland, ráðist þeir á Úkraínu, yrðu verri en nokkurn tíman hefði sést. Bætti hann þó við að ekki stæði til að senda bandaríska hermenn til Úkraínu til að mæta rússneska hernum.