Tillögur að nýjum sóttvarnaaðgerðum í Danmörku voru staðfestar í gærkvöldið og munu þær taka gildi strax á morgun. Reglurnar munu bæði ná til skemmtanalífsins og skólahalds en auk þess eru Danir hvattir til að halda að sér höndum hvað varðar félagslegar samkomur.
Frá þessu er greint á vef danska ríkissjónvarpsins.
Á föstudag munu takmarkanir á skemmtanalífinu taka gildi þar sem næturlífinu verður lokað og ekki verður heimilt að kaupa áfengi eftir miðnætti.
Afgreiðslutími veitingastaða verður styttur og þeim gert að loka á miðnætti. Munu gestir einnig þurfa að framvísa kórónuveirupassa og bera grímu þegar þeir yfirgefa sæti sín. Þá mega einungis 50 koma saman á standandi tónleikum.
Þann 15. desember mun síðan fjarkennsla hefjast í barnaskólum en markmiðið er að ná að bólusetja sem flesta nemendur fyrir áramót.
Þá eru allir Danir sem hafa kost á að vinna að heiman hvattir til að gera slíkt og fólk sömuleiðis beðið um að aflýsa stórum samkomum yfir hátíðirnar.