Fleiri samkomur skoðaðar vegna jólaveislu

Boris Johnson á blaðamannafundi.
Boris Johnson á blaðamannafundi. AFP

Svo gæti farið að rannsókn á jólaveislu í Downingstræti 10 sem var haldin í fyrra verði útvíkkuð þannig að aðrar samkomur verði einnig skoðaðar.

Heilbrigðisráðherra Bretlands, Sajid Javid, sagði að embættismaðurinn Simon Case væri ekki að einblína á eina ákveðna dagsetningu í rannsókn sinni á jólaveislunni 18. desember, að sögn BBC.

Aðrar samkomur eru einnig sagðar hafa verið haldnar 13. og 27. nóvember í fyrra þegar strangar samkomutakmarkanir voru í gangi í Bretlandi.

Boris Johnson forsætisráðherra tilkynnti í gær að rannsókn fari fram vegna jólaveislunnar í fyrra eftir að myndband birtist af starfsfólki að gera grín að málinu.

Segja enga veislu hafa átt sér stað

Ríkisstjórnin heldur því fram að engin veisla hafi átt sér stað 18. desember. Á þeim tíma var almenningi bannað að hittast í hópum innandyra eða í garðveislum.

Undir þrýstingi frá stjórnarandstöðunni og vaxandi gagnrýni frá sumum þingmönnum úr eigin flokki tilkynnti Johnson að Case myndi komast að því hvað gerðist í raun og veru.

Bætti hann við að ef einhver hafi gerst sekur um brot á Covid-reglum yrði honum refsað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert