Maðurinn með gervihöndina bólusettur

AFP

Tannlæknirinn ítalski sem freisti þess að blekkja hjúkrunarfræðing í bólusetningunni, án árangurs, með sílikon-hönd að vopni hefur verið nú bólusettur. The Independant greinir frá.

Dr. Guido Russo heitir hinn umræddi maður en hann sagði, í ítalska viðtalsþættinum La7, að hann væri nú bólusettur og að bólusetningin sé „okkar eina vopn gegn þessum hræðilega sjúkdómi.“

Umrætt atvik hafi einfaldlega verið hans persónulega leið til þess að mótmæla skyldubólusetningu en krafa hefur verið á Ítalíu um að allt heilbrigðisstarfsfólk skuli bólusett. Sjálfur segist hann hafa farið í bólusetningar allt sitt líf.

Hann hafi mætt og látið bólusetja sig strax daginn eftir þar sem hann var skyldugur til þess.

Ekki ætlað að blekkja neinn

Russo, sem mögulega á fyrir höfði sér ákæru fyrir svik, sagðist þar jafnframt ekki hafa verið að reyna að blekkja neinn, enda hafi „höndin bersýnilega ekki verið ekta“.

Hjúkrunarfræðingurinn sem kom upp um manninn sagði hann þó hafa reynt að sannfæra hana um að segja engum frá.

Bólusetningarhlutfall Ítalíu er 85% meðal 12 ára og eldri. Fólk á aldursbilinu 30 til 59 ára hefur þar reynst tregast til að mæta í bólusetningu en enn eru 3,5 milljón manns á því aldursbili sem enn eru óbólusett þar í landi.

Daglegum smitum hefur farið þar hækkandi síðan um miðjan októbermánuð en síðastliðna viku hafa nær 16 þúsund greinst þar á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert