Næstu kynslóðum verði bannað að kaupa sígarettur

Um 13% Ný-Sjálendinga reykja.
Um 13% Ný-Sjálendinga reykja. AFP

Nýsjálensk stjórnvöld ætla að hækka lágmarksaldur þeirra sem mega kaupa tóbak í landinu.

Með þessu vilja þau koma í veg fyrir að ungmenni geti keypt sígarettur á löglegan máta.

Samkvæmt nýverandi lögum má ekki selja tóbak til ungmenna undir 18 ára aldri. Að sögn heilbrigðisráðherrans Ayesha Verrall verður lágmarksaldurinn hækkaður árlega frá og með árinu 2027.

Allir sem fæðast eftir árið 2008 munu ekki geta keypt sígarettur eða annað tóbak á löglegan hátt í landinu á ævi sinni, samkvæmt nýjum lögum sem búist er við að taki gildi á næsta ári.

Fólk byrji ekki að reykja

„Við viljum sjá til þess að fólk byrji aldrei að reykja…þegar það eldist mun það og næstu kynslóðir aldrei geta tóbak á löglegan hátt, vegna þess að sannleikurinn er sá að það er enginn öruggur aldur til að byrja að reykja,” sagði hún.

Einnig verða settar hömlur á hvar tóbak verður selt og aðeins verða leyfðar vörur með litlu magni af nikótíni til að koma í veg fyrir að fólk verði háð tóbakinu.

Verrall sagði að með áformum sínum haldi Nýja-Sjáland áfram að vera leiðandi í tóbaksvarnarmálum í heiminum. Meðal annars hafi landið meinað tóbaksfyrirtækjum að styrkja íþróttir árið 1990 og bannað reykingar á börum árið 2004.

„Þetta er sögulegur dagur fyrir heilsu almennings,” sagði hún.

„Reykingar eru enn helsta ástæða dauðsfalla sem hægt væri að koma í veg fyrir á Nýja-Sjálandi.”

Sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið

Um 13% Ný-Sjálendinga reykja og hafa reykingarnar dregist saman um 18% í landinu síðastliðinn áratug. Hlutfall reykingamanna hjá Maórum er mun hærra, eða um 31% og þar er einnig mun meira um sjúkdóma og dauðsföll sem hægt væri að koma í veg fyrir.

Stjórnvöld ætla að draga úr reykingum um fimm prósent fyrir árið 2025 og vonast til að sparnaður í heilbrigðiskerfinu verði 3,6 milljarðar dala í framtíðinni, eða um 470 milljarðar króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert