Segir Maxwell hafa útvegað Epstein „nudd“

Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein á ljósmynd sem hefur verið …
Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein á ljósmynd sem hefur verið notuð í réttarhöldunum. AFP

Kona sem bar vitni í réttarhöldunum yfir Ghislaine Maxwell sagðist hafa verið aðeins 14 ára þegar Maxwell byrjaði að fá hana til að veita Jeffrey Epstein nudd, sem ávallt endaði með kynferðislegum athöfnum.

Konan, sem er kölluð Carolyn, sagðist venjulega hafa fengið greidda 300 dali, eða tæpar 40 þúsund krónur, í hvert skipti sem hún var með Epstein, oftast frá Maxwell sjálfri.

Maxwell, sem er 59 ára, er sökuð um að hafa lokkað til sín stúlkur undir lögaldri sem fyrrverandi kærasti hennar, auðjöfurinn Epstein sem framdi sjálfsvíg í fangelsi fyrir tveimur árum, níddist síðan á.

Hún er ákærð í sex liðum, meðal annars fyrir mansal, og segist saklaus af þeim öllum.

Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein.
Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein. AFP

Carolyn sagðist í réttarsalnum hafa átt erfitt uppdráttar í uppvextinum. Móðir hennar hafi verið alki og eiturlyfjafíkill. Hún sagði afa sinn hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi.

Ólíkt tveimur öðrum vitnum sagðist hún ekki hafa verið kynnt fyrir Epstein af Maxwell heldur annarri stúlku, Virginiu Roberts, sem hún þekkti í gegnum þáverandi kærasta sinn.

Roberts, sem er einnig þekkt sem Virginia Giuffre, hefur áður greint frá kynferðislegri misnotkun af hálfu Epstein. Ekki er búist við því að hún beri vitni í réttarhöldunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka