Í kjölfar þess að Bandaríkjaher yfirgaf Afganistan nú í haust tóku talíbanar völdin. Áhyggjur af stöðu kvenna þar í landi voru strax áberandi enda grundvallast stjórnarhættir talíbana í öfgafullri túlkun á Íslamstrú. Útvarpsstöðin „Radio Begum“, sem sendir út frá Kabúl, sendir nú út dagskrá með röddum kvenna sem hafa upplifað þöggun í landinu.
Dagskrá stöðvarinnar er sett upp með konur í huga og sjá konur um útsendingar á stöðinni. Ýmsir fræðandi þættir, bókaupplestrar og þáttur þar sem konur geta hringt inn og rætt við aðrar konur um raunir þeirra og erfiðleika eru á dagskránni.
Eins og stendur er útvarpsstöðin rekin með leyfi harðlínu stjórnarinnar sem takmarkað hefur aðgengi kvenna að vinnu og skólagöngu.
„Við ætlum ekki að gefast upp,“ hefur AFP fréttastofan eftir hinni 48 ára gömlu Hamida Aman sem stofnaði stöðin. Hún ólst upp í Sviss en fjölskylda hennar flúði Afganistan í kjölfar innrásar Sovétríkjanna á síðustu öld.
Hún bætir við: „Við verðum að sýna að við þurfum ekki að vera hræddar.“
Hamida sneri aftur til landsins eftir að Bandaríkjaher tók völdin úr höndum stjórnar talíbana árið 2001.
Útvarpsstöðin var stofnuð þann 8. mars síðastliðinn á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Þetta var fimm mánuðum áður en að talíbanar náðu völdum í Kabúl. Stöðin sendir þó enn út dagskrá sína úr hefðbundnu millistéttar hverfi í borginni.
Hamida segir við AFP að stöðin sé hugsuð sem miðlun fyrir raddir kvenna, sársauka þeirra og reiði. Eins og áður segir sendir stöðin enn út, en þó við aðeins breyttar aðstæður. Popptónlist þurfti að víkja fyrir hefðbundnari tónlist og konurnar sem áður störfuðu með körlum hafa nú verið aðskildar frá þeim. Karlar á einni hæð og konurnar á annarri.