Engin jólaveisla í Downingstræti

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Það verður ekkert jólaboð í breska forsætisráðuneytinu að því er talsmaður Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá í dag. Johnson hefur staðið í ströngu undanfarna daga í kjölfar fullyrðinga um að starfslið hans hefði brotið sóttvarnarlög í fyrra. 

„Engin slík plön eru í bígerð í nr. 10 [sem vísar til Downingstrætis 10 í London þar sem forsætisráðherrann hefur aðsetur],“ sagði talsmaðurinn í dag. Johnson kynnti í gær að gripið yrði til hertra aðgerða í landinu til að sporna gegn útbreiðslu Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar sem hefur dreift sér hratt um allan heim.

Það er orðið jólalegt við Downingstræti 10 í London, en …
Það er orðið jólalegt við Downingstræti 10 í London, en það verður ekki haldin þar jólaveisla í ár. AFP

Johnson tók þó fram á miðvikudag að hann vonaðist til þess að fólk myndi halda sínar jólaveislur og samkomur svo lengi sem fólk færi að öllu með gát.

Fólk á Englandi verður beðið um að vinna heima hjá sér sér frá og með næsta mánudegi sé þess kostur. Það hefur leitt til þess að mörg fyrirtæki hafa aflýst jólaboðum sem er mikið högg fyrir veisluþjónustur.

Mjög hefur verið sótt að Johnson í kjölfar fregna að starfslið hans í Downingstræti hafi haldið ólöglega jólaveislu í fyrra þegar stjórnvöld höfðu hert mjög reglur og meira að segja meinað fjölskyldum að hittast í London.

Því hefur verið haldið fram að starfslið forsætisráðuneytisins hafi vísvitandi brotið þessar reglur, m.a. með því að skiptast á gjöfum 18. desember í fyrra og hlustað saman á ræðu sem Jack Doyle, sem var þáverandi samskiptastjóri Johnsons.

Allegra Stratton, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Johnson, sagði af sér eftir að …
Allegra Stratton, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Johnson, sagði af sér eftir að myndskeið af henni hlæjandi að tala um jólaveislu í Downingstræti í fyrra fór í dreifingu. AFP

Daginn eftir tilkynnti Johnson að landsmenn að landsmenn yrðu að halda sig heima í höfuðborginni og á suðausturhluta landsins og þar með neyddust íbúar til að aflýsa fyrirhuguðum jólaboðum með vinum og vandamönnum.

Johnson hefur sagt við breska þingið að hann telji að engar reglur hafi verið brotnar í fyrra en aftur á móti fyrirskipað rannsókn.

Fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi forsætisráðherrans sagði af sér eftir að málið komst upp, en hún sást vera hlæjandi í myndskeiði þar sem starfsliðið var að æfa sig fyrir blaðamannafund skömmu eftir að meint teiti átti að hafa átt sér stað. Þau voru m.a. að reyna að finna út úr því hvað þau ættu að segja um samkomuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert