Norðmaðurinn Magnus Carlsen varði í dag heimsmeistaratitil sinn í skák, þegar hann vann Rússann Ian Nepomniachtchi í 11. einvígisskák þeirra um titilinn.
„Ég er ánægður með taflmennsku mína í einvíginu," sagði Carlsen við fréttamenn á eftir.
Með sigrinum tryggði Carlsen sér 7,5 vinninga gegn 3,5 vinningum Nepomniachtchis. Carlsen, sem er 31 árs gamall, hefur verið heimsmeistari í skák frá árinu 2013 og fimmta einvígið um titilinn sem hann vinnur.
Carlsen hafði svart í dag. Skákin var í jafnvægi fram í 22. leik þegar Nepomniachtchi virtist leika illa af sér. Carlsen var samt nokkuð lengi að innbyrða vinninginn en eftir 49 leiki hafði Nepomniachtchi fengið nóg og gafst upp.
Verðlaunaféð í einvíginu, sem fór fram í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, nam 2 milljónum evra, jafnvirði nærri 300 milljóna króna. Fær Carlsen 60% af því, eða jafnvirði 180 milljóna króna, en Nepomniachtchi 40% eða um 120 milljónir króna.