Örvunarskammtur mikilvægur í baráttu við Ómíkron

AFP

Breskir vísindamenn segja að tvær bóluefnasprautur dugi ekki gegn Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar sem hefur dreifst hratt um allan heim. Þriðja sprautan, svokallaður örvunarskammtur, gæti aftur á móti komið í veg fyrir að um það bil 75% fólks fái einkenni.

Michael Gove, ráðherra í bresku stjórninni, segir að Bretar standi frammi fyrir erfiðu ástandi. Hann fór fyrir fundi Cobra-nefndarinnar, sem fjallar um þjóðaröryggismál í Bretlandi, þar sem fram kom að hingað til hafi verið gripið hafi til viðunandi aðgerða. Allir ráðherrar séu þó reiðbúnir að endurskoða allar áætlanir þegar nýjar upplýsingar berist. 

Fram kemur á vef breska útvarpsins að 448 Ómíkron-smit hafi greinst í Bretlandi í dag en það gera alls um 1.265 tilfelli í Bretlandi. Alls voru greind 58.194 Covid-smit í Bretlandi í dag, sem er mesti fjöldi frá því 9. janúar á þessu ári.

Grímuklæddir vegfarendur sjást hér á ferð á Oxford-stræti í miðborg …
Grímuklæddir vegfarendur sjást hér á ferð á Oxford-stræti í miðborg Lundúna. AFP


Bresk stjórnvöld segja að þau hafi uppfært reglur er varða hjúkrunarheimili, m.a. hefur hámarksfjöldi gesta verið takmarkaður auk þess sem fleiri Covid-próf verða framvæmd.

Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands (UKHSA) hefur birt skýrslu þar sem fjallað er um 581 Ómíkron-tilfelli sem hafa verið rannsökuð, en umrætt afbrigði hefur stökkbreyst mikið, og mörg þúsund Delta-afbrigði til að reikna út hversu mikla vernd bóluefni veiti fólki gegn nýja afbriðgðinu.

Rannsóknirnar byggja á takmörkuðum gögnum enn sem komið er, en sýna þó fram á að bóluefni Oxford-AstraZeneca virki illa á Ómíkron-afbrigðið sem og tveir skammtar af bóluefni Pfizer. Tekið er fram að 75% vörn gegn Covid-einkennum eftir örvunarskammt sé talsvert lægra hlutfall en hefur mælst gagnvart öðrum afbrigðum veirunnar. 

Ekki lágu fyrir nægilega mikið af gögnum hvað varðar bóluefni frá Moderna og Janessen, en menn telja þó afar líklegt að niðurstaðan verði á svipuðum nótum.

Talsmenn heilbrigðisöryggisstofnunar Bretlands taka þó fram að bóluefni muni aftur á móti veita góða vörn gegn alvarlegustu einkennum Covid sem séu þess valdandi að fólk þarf að leggjast inn á sjúkrahús.

Alls hafa um 22 milljónir Breta fengið örvunarskammt. Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins að þrátt fyrir að allir landsmenn fengu slíkan skammt þá séu enn milljónir landsmanna berskjaldaðar.

Yfirvöld eru þó bjartsýn á að margir muni komast hjá því að lenda á sjúkrahúsi þrátt fyrir að fleiri landsmenn komi til með að smitast af kórónuveirunni.

Þá er tekið fram, að Ómíkron-bylgja myndi valda talsverðum usla í samfélaginu þrátt fyrir að einkenni afbrigðisins séu talsvert mildari, því ef veiran breiðist hratt út og margir smitast á sama tíma þá getur það valdið miklu álagi á sjúkrastofnanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert