Frönsk kona var í gær sektuð um 1.200 evrur, andvirði 176 þúsund króna, fyrir að hafa valdið einu versta slysi í hjólreiðakeppninni Tour de France frá upphafi.
Í keppninni í sumar hélt konan uppi skilti með kveðju til ömmu sinnar og afa, sem reyndist afdrifaríkt. Konan vildi vekja athygli á skiltinu og koma því í sjónvarp svo hún teygði sig langt inn á brautina þar sem hjólreiðakappar komu aðvífandi.
Fór það svo að hún felldi einn hjólreiðamann sem síðan felldi alla þá sem á eftir honum komu. Þó nokkuð margir urðu að hætta keppni vegna meiðsla eftir slysið, þar á meðan Spánverjinn Marc Soler, sem braut báða handleggi.
Í frétt BBC segir að konan, sem einnig var gert að greiða franska hjólreiðasambandinu táknræna einnar evru sekt, gaf sig fram við lögreglu örfáum dögum síðar. Myndbönd af slysinu fóru víða á samfélagsmiðlum í sumar.
Fyrir dómi vildu saksóknarar að konan yrði dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stofna lífum fólks í hættu og fyrir að óviljandi valda öðrum skaða.
Saksóknarar drógu þó í land og viðurkenndu að konan hafi sýnt mikla iðrun og sögðu bersýnilegt að hún gerði sér grein fyrir hvað athæfið var glórulaust.
Forstöðumaður Tour de France, Christian Prudhomme, hefur ætíð sýnt samúð með konunni síðan slysið varð.
„Hún gerði nokkuð sem var heimskulegt, hún er enginn hryðjuverkamaður,“ sagði Prudhomme við blaðamenn í október síðastliðnum og bætti við: „Við viljum einungis að fólk gæti sín þegar það kemur á Tour og að það muni að það sé þangað komið til að berja meistarana augum en ekki komast í sjónvarpið.“