„Ég stend frammi fyrir ykkur í dag sem fulltrúi hvers einasta blaðamanns í heimi hér, sem færir svo ríkulegar fórnir við að gæta að mörkunum, halda gildum okkar og ætlunarverki til haga: að færa ykkur sannleikann og krefja valdið reikningsskila,“ sagði Maria Ressa í ræðu sinni í Ráðhúsi Óslóar í gær, þar sem þeim Dmitrij Muratov voru veitt friðarverðlaun Nóbels árið 2021 fyrir að standa vörð um tjáningarfrelsið, „skilyrði lýðræðis og varanlegs friðar,“ eins og það var orðað í úrskurðarorðum Nóbelsverðlaunanefndarinnar þegar verðlaunahafarnir voru útnefndir í haust.
Ressa og Muratov eru blaðamenn, hún filippseysk, hann rússneskur, og hafa hvor tveggju vakið heimsathygli fyrir skrif sín, Ressa ritstýrir fréttavefnum Rappler og hlaut í fyrrasumar dóm fyrir meiðyrði í umfjöllun sinni um tengsl þekkts athafnamanns við hæstaréttardómara á Filippseyjum árið 2012. Lögin, sem hún var talin hafa gerst brotleg við, höfðu þó ekki tekið gildi þegar skrif hennar litu dagsins ljós og er altalað að filippseysk stjórnvöld hafi í raun haft horn í síðu hennar fyrir gagnrýna umfjöllun hennar um Rodrigo Duterte forseta og vafasama aðferðafræðina í stríði hans gegn fíkniefnum.
Ressa hefur einnig fjallað ítarlega um hryðjuverkaógnina í Suðaustur-Asíu og er höfundur bókanna Ógnarfræ: Vitnisburður um nýja miðstöð Al-Qaida (Seeds of Terror: An Eyewitness Account of Al-Qaidas Newest Center) og Frá Bin Laden til Facebook: 10 daga brottnám, 10 ára skelfingarskeið (From Bin Laden to Facebook: 10 Days of Abduction, 10 Years of Terrorism).
„Ég tók þátt í að skapa upphafspunkt, Rappler, sem verður tíu ára gamall í janúar, tilraun til að sameina báðar hliðar penings sem sýnir okkur hve margt er á skjön í þeim heimi sem við lifum í: hörgul á lögum og lýðræðislegri sýn 21. aldarinnar. Sá peningur er táknmynd upplýsingavistkerfis okkar, sem ákvarðar svo margt í okkar tilveru. Blaðamenn, hliðverðirnir gömlu, eru önnur hlið þess penings. Hin hliðin er tæknin, með nánast almáttugu afli sínu, sem hefur gert veiru lyga kleift að dafna með okkur hverju og einu, snúa okkur gegn hvert öðru, draga fram ótta okkar, reiði og hatur og næra jarðveginn fyrir valdboð og einræði um allan heim,“ sagði Ressa enn fremur í ræðu sinni.
Hún ræddi því næst um skyldu blaðamanna um gervalla heimsbyggðina til að hlúa að sannleikanum í gjörningaveðri falsfrétta, tæknin mætti ekki vera sem veira í höndum blaðamanna, heldur dafnandi grænmeti. „Ósýnileg kjarnorkusprengja hefur sprungið í upplýsingavistkerfi okkar og heimurinn verður að bregðast við á sama hátt og hann gerði eftir Hiroshima,“ sagði Ressa, sem varið hefur miklum kröftum í að vekja athygli heimsbyggðarinnar á falsfréttum svokölluðum og skaðsemi þeirra.
„Mamma, við fengum Nóbelsverðlaunin,“ hóf rússneski blaðamaðurinn Dmitrij Andrejevitsj Muratov ræðu sína við mikla kátínu viðstaddra og rifjaði upp þegar hann færði móður sinni tíðindin fyrr í vetur. „En gaman. Er eitthvað annað að frétta?“ spurði móðir hans um hæl. Vitnaði Muratov því næst í rússneska kjarneðlisfræðinginn og mannréttindafrömuðinn Andrei Sakharov, friðarverðlaunahafa ársins 1975, sem sagðist sannfærður um að frelsi samviskunnar, í samfloti við önnur borgaraleg réttindi, væri grundvöllur framfara.
Muratov ritstýrir óháða blaðinu Novaja Gazeta, sem kemur út tvisvar í viku, en því var komið á fót árið 1993 og hefur ritstjórnarstefna þess sjaldnast þóknast rússneskum stjórnvöldum. Meðal blaðamanna Novaja Gazeta var Anna Politkovskaja heitin, sem var skotin til bana í lyftu fjölbýlishússins er var heimili hennar í Moskvu á haustdögum 2006, en hún hafði þá meðal annars fært fréttir af mannréttindabrotum rússneskra hermanna og öryggissveita í Tétsníu.
„Við erum blaðamenn og verkefni okkar er skýrt – að greina staðreyndir frá hindurvitnum,“ sagði Muratov í ræðu sinni. „Hin nýja kynslóð blaðamanna veit hvernig hún á að vinna með gríðargögn [e. big data] og gagnagrunna [...] Fólkið fyrir ríkið eða ríkið fyrir fólkið? Það er helsta þrætuepli nútímans. Stalín leysti það mál með hreinsunum,“ sagði hann enn fremur.
Hann kvað blaðamennsku í Rússlandi fara um dimman dal. Fjöldi blaðamanna og fjölmiðla hefðu verið stimplaðir erindrekar erlendra afla sem í Rússlandi tákni því sem næst óvini þjóðarinnar. Þar hefði fjöldi blaðamanna misst lífsviðurværi sitt og margir flúið land. „Einhverjir hafa verið rændir tækifærinu til að eiga sér eðlilegt líf um óákveðinn tíma. Kannski það sem eftir er. Slíkt hefur gerst áður í sögu okkar.“
Rifjaði Muratov því næst upp víg blaðamannanna Orkhan Dzhemal, Kirill Radsjenkó og Alexander Rastorgujev í Mið-Afríkulýðveldinu 30. júní 2018 þar sem þeir rannsökuðu umsvif rússneska málaliðahópsins Wagner PMC, en ekkja Dzhemal, Ira Gordienko, er blaðamaður á Novaja Gazeta. Greindi hún frá því að lögregla í Mið-Afríkulýðveldinu hefði eytt þýðingarmiklum sönnunargögnum og meðal annars brennt föt þremenninganna myrtu. Rannsókn rússneskra yfirvalda á málinu hefði verið í skötulíki og engu skilað.
Muratov gat þess reyndar ekki í ræðu sinni, en meðal þeirra sem fjármagna Wagner PMC er auðjöfurinn Jevgený Prigozhin, góðvinur Pútíns Rússlandsforseta og jafnan nefndur „kokkur Pútíns“ vegna fjölda veitingastaða í hans eigu.
Muratov bað viðstadda að lokum um einnar mínútu þögn í minningu starfssystkina þeirra Mariu Ressa, sem fórnað hefðu lífi sínu fyrir atvinnu sína og hvatti til stuðnings við þá sem ofsóknum sættu. „Ég óska þess að blaðamenn deyi í ellinni,“ lauk Muratov máli sínu við dynjandi lófatak úr hátíðarsal ráðhússins sem þó var öllu fámennari en við síðustu friðarverðlaunaafhendinu, árið 2019, en í gær var eins metra bil milli allra stóla á gólfinu og stórt skarð milli Haraldar konungs og Sonju drottningar annars vegar og Hákonar krónprins hins vegar, þar sem Mette-Marit krónprinsessa fann til flensueinkenna og var send í PCR-próf og sóttkví þar til niðurstaða lægi fyrir.