Fjölmiðlamógúlinn Jimmy Lai frá Hong Kong var í dag dæmdur í þrettán mánaða fangelsi fyrir að hafa tekið þátt í minningarathöfn um blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar í Kína árið 1989.
Lai, sem er 74 ára gamall, var gefið að sök að hafa hvatt aðra til þess að taka þátt í þessari ólöglegu samkundu.
Tugir stjórnmálamanna og aðgerðasinna í Hong Kong hafa hlotið ákærur fyrir sama glæp, að því er fram kemur í frétt BBC.
Lai ætlar að una dómnum og bréf sem hann skrifaði úr fangelsi var lesið við dómsuppkvaðningu hans í morgun.
„Ef það að minnast þeirra sem létust fyrir sakir óréttlætis er glæpur, þá gengst ég við þeim glæp og afplána mín refsingu... þannig get ég deilt byrði og dýrð þeirra ungu manna og kvenna sem fórnuðu blóði sínu 4. júní," sagði Lai í bréfi sínu.
Minningarathöfnin sem um ræðir er haldin á hverju ári til þess að minnast þess þegar kínverskir hermenn skutu á friðsama mótmælendur á Torgi hins himneska friðar í Peking, höfuðborg landsins, þann 4. júní árið 1989.
Hong Kong hefur lengi verið eini staðurinn innan Kína þar sem minningarathöfn vegna hörmunganna hefur verið leyfð, en í fyrra voru slíkar samkomur bannaðar vegna kórónuveirufaraldursins.