Elon Musk manneskja ársins

Elon Musk.
Elon Musk. AFP

Tímaritið Time útnefndi í dag auðkýfinginn Elon Musk, stofnanda og forstjóra Tesla, sem manneskju ársins, en Time hefur útnefnt manneskju ársins frá árinu 1927.

Hinn fimmtugi Musk, sem fæddist í Suður-Afríku, tók í ár fram úr Jeff Bezoz, stofnanda Amazon, á listanum yfir ríkasta mann í heimi. 

Í október fór markaðsvirði Tesla, sem framleiðir samnefnda rafmagnsbíla, yfir eina billjón dali og þá hefur geimferðafyrirtæki Musk, SpaceX, unnið á þessu ári með geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, að ýmsum verkefnum. M.a. skutu þeir á loft eldflaug sem brotlenti á loftsteini, en tilgangur ferðarinnar var að kanna hvort það væri hægt að breyta um stefnu loftsteina í framtíðinni til að forða jarðarbúum frá stórslysi. 

Musk er einna þekktastur fyrir að vera stofnandi Tesla.
Musk er einna þekktastur fyrir að vera stofnandi Tesla. AFP

„Manneskja ársins hefur áhrif, og fáir einstaklingar hafa haft meiri áhrif en @elonmusk á lífið á jörðinni, og mögulega líf utan jarðar einnig,“ sagði Edward Felsenthal, ritstjóri Time, í færslu sem hann birti á Twitter. 

Musk hefur verið mjög áberandi í bandarískri menningu á undanförnum árum. Hann hefur náð að safna 66 milljónum fylgjenda á Twitter og í maí var hann einn af gestaþáttastjórnendum grínþáttarins Saturday Night Live. 

Musk hefur talað af ástríðu um áhuga sinn á að byggja nýlendu á Mars og á næsta ári stefnir hann á að skipuleggja ferðir um sporbaug jarðar, sem er liður í áætlunum SpaceX að fljúga aftur með Bandaríkjamenn til tunglsins. 

Falcon 9 eldflaug SpaceX sést hér á skotpalli Kennedy geimferðamiðstöðvar …
Falcon 9 eldflaug SpaceX sést hér á skotpalli Kennedy geimferðamiðstöðvar NASA á Flórída fyrr í þessum mánuði. AFP

Hann er einnig þekktur fyrir að hafa áhrif á markaði á virði rafmynta með einni færslu á Twitter. 

Hans mestu áhrif, bæði efnahagslega og samfélagslega, eru rafbílar. Musk segir að markmið Tesla hafi ávallt að vera öðrum bílaframleiðendum fyrirmynd og hafa áhrif á þá þannig að þeir myndu einnig hefja framleiðslu á rafbílum. Markmiðið sé að hraða þeirri breytingu í átt að sjálfbærum orkugjöfum.

Geimurinn hefur einnig fangað huga og athygli Musk. „Markmið hans er að gera mannkynið að tegund sem búi á mörgum hnöttum,“ segir rithöfundurinn Jeffrey Kluger, sem skrifar fyrir Time. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert