Hjúkrunarkona fannst látin í rústunum

Björgunarsveitir á Ítalíu unnu í dag við að losa lík hjúkrunarkonu sem lá föst í rústum byggingar sem hrundi á Skiley í mikilli sprengingu um helgina. Fram kemur í frétt AFP-fréttaveitunnar að konan hafi verið með barni. Að minnsta kosti sjö létu lífið í sprengingunni. 

Talið er að hana megi rekja til gasleka en alls eyðilögðust fjórar byggingar á svæðinu síðdegis á laugardag, en atvikið varð í bænum Ravanusa. Einn einstaklingur, sem komst lífs af, lýsir ástandinu eins og eftir sprengjuárás.

Slökkviliðsmenn sjást hér leita í húsarústum í bænum.
Slökkviliðsmenn sjást hér leita í húsarústum í bænum. AFP

Að sögn slökkviliðsins á staðnum stendur leit enn yfir en tveggja er enn saknað. 

Sem fyrr segir stórskemmdust fjórar byggingar á svæðinu, þar af fjögurra hæða fjölbýlishús í miðbænum. Alls búa um 11.000 manns í Ravanusa. 

Myndir frá vettvangi sýna mikla eyðileggingu og húsarústir. 

AFP-fréttaveitan segir að hjúkrunarkonan, Selene Pascariello, hafi verið þrítug og komin níu mánuði á leið. Lík hennar fannst við hlið eiginmanns hennar og foreldra hans. Parið hafði verið í heimsókn hjá foreldrum mannsins á þriðju hæð fjölbýlishúss þegar sprengingin varð. 

Tvær konur fundust á lífi snemma á sunnudag eftir að leitarhundar urðu varir við þær. Aðrir hafa ekki fundist á lífi.

AFP

Lögreglan hefur nú hafið rannsókn en yfirvöld telja líklegt að sprengingin hafi orðið af völdum gasleka. 

„Ég heyrði gríðarlegan hávaða, eins og ef sprengja hefði sprungið eða flugvél hefði brotlent á húsinu,“ sagði einn sjónarvottur í samtali við ítalska fjölmiðla. 

„Svo sprungu rúður. Við þustum út á götur og það var eldur út um allt, og allt í rúst,“ bætti maðurinn við sem náði að flýja ásamt eiginkonu sinni, þremur börnum og tengdaforeldrum. 

„Það er kraftaverk að við séum á lífi.“

Loftmynd sem sýnir svæðið sem eyðilagðist.
Loftmynd sem sýnir svæðið sem eyðilagðist. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert