Örvunarskammtur af bóluefni við kórónuveirunni stendur öllum 18 ára og eldri til boða á Englandi frá og með þessari viku eftir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, lýsti yfir „Ómíkron-neyðarástandi“.
Þetta kom fram í sjónvarpsávarpi Johnson í gærkvöldi en hann býst við miklum fjölda smita af Ómíkron-afbrigðinu á næstunni í Bretlandi.
„Það þarf enginn að efast um þá holskeflu smita af Ómíkron-afbrigðinu sem væntanleg er,“ sagði Johnson.
Áætlanir gerðu áður ráð fyrir því að öllum 18 ára og eldri yrði boðin örvunarbólusetning fyrir lok janúar en þeim áætlunum hefur verið flýtt um mánuð.
Viðbúnaðarstig vegna kórónuveirunnar var hækkað í fjórða stig í gær en svo hátt hefur það ekki verið síðan í maí.
Johnson sagði ljóst að þjóðin stæði frammi fyrir neyðarástandi í baráttunni við Ómíkron.
„Ljóst er að tveir skammtar af bóluefni duga ekki til að veita þá vernd sem við þurfum. Góðu fréttirnar eru þær að þriðji skammturinn eykur varnirnar,“ sagði Johnson.
Ráðherrann bætti því við að vísindamenn hefðu enn ekki fullyrt neitt um að nýja afbrigðið valdi vægari einkennum en önnur.