Nýjar samkomutakmarkanir í Noregi voru kynntar í kvöld af Jonas Gahr Støre norska forsætisráðherranum og munu þær taka gildi á miðvikudag. Þetta er ekki síður fréttnæmt í ljósi þess að innan við vika er liðin frá því að Norðmenn kynntu síðast hertari sóttvarnaaðgerðir.
Frá þessu er greint á vef NRK.
Undanfarna daga hefur smittíðni farið ört hækkandi í norsku samfélagi og hafa yfirvöld ákveðið að láta ekki þar við sitja. Munu aðgerðirnar sem kynntar voru í kvöld gilda yfir hátíðarnar, eða út næstu fjórar vikur.
Samkvæmt nýju sóttvarnaaðgerðunum verður ekki leyfilegt að hýsa fleiri en 10 gesti umfram heimilismenn á hverju heimili fyrir sig. Undantekning verður veitt um jól og áramót þegar bjóða má allt að 20 heim. Gestir þurfa þó að viðhalda eins meters fjarlægð sín á milli.
Á viðburðum sem fara fram innandyra ber gestum að virða grímuskylduna og er hámarks fjöldi 20. Undantekning er veitt fyrir sitjandi viðburði en þá mega alls 50 safnast saman.
Sala áfengis hefur einnig verið takmörkuð en algjört bann hefur verið lagt við henni á veitingahúsum og krám í landinu.
Þá ber öllum sem hafa tök á því að vinna að heiman að gera það og eru landsmenn enn og aftur hvattir til að halda að sér höndum hvað varðar samkomur.