Pútín vann um tíma sem leigubílstjóri

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti kveðst harma fall Sovétríkjanna árið 1991, en þetta kemur fram í nýrri heimildarmynd sem var sýnd í gær. Þar kom líka fram að Pútín hefði eftir fallið byrjað að keyra leigubíl til að drýgja tekjurnar. 

Hrunið kom illa við marga landsmenn sem urðu að leita nýrra leiða til að draga björg í bú. 

Pútín segir í heimildarmyndinni, sem kallast Sögur af Rússlandi, að fall Sovétríkjanna hafi verið hrun hins sögulega Rússlands. Fram kemur á vef breska útvarpsins, að menn velti því fyrir sér hvort Pútín sé með ummælum sínum að beina sjónum að því hvað hann ætli sér með Úkraínu, sem tilheyrði áður Sovétríkjunum. 

Rússar hafa sent 90.000 manna herlið að landamærunum að Úkraínu og menn óttast að það standi til að gera innrás. Rússar vísa þessu á bug. Þeir segja að Úkraínumenn hafi verið með ögranir og vilji tryggja sig gagnvart frekari útþenslu NATO á svæðinu. 

„Þetta var upplausn hins sögulega Rússlands sem bar nafn Sovétríkjanna,“ sagði Pútín í myndinni. Hann bætti við að Vesturveldin teldu að frekari upplausn í Rússlandi væri aðeins tímaspursmál. 

„Stundum varð ég að þéna aukapening,“ sagði Pútín. „Ég á við, þéna meira á bíl, sem einkabílstjóri. Það er í hreinskilni sagt óþægilegt að tala um þetta, en því miður þá var þetta staðan.“ 

Á þessum tíma voru leigubílar sjaldgæf sjón í Rússlandi. Margir einstaklingar buðu því ókunnugu fólki upp á bílferðir til að láta endana ná saman. Sumir notuðu m.a. sjúkrabíla sem leigubíla. 

Pútín er þekktari fyrir að hafa verið fyrrverandi liðsmaður leyniþjónustunnar KGB. 

Í byrjun tíunda áratugarins starfaði hann á skrifstofu borgarstjóra St. Pétursborgar, Anatolíj Sobt­sjak. Pútín heldur því fram að hann hafi sagt skilið við KGB í ágúst 1991 í kjölfar uppreisnarinnar gegn Mikhaíl Gor­bat­sjov, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, sem leiddi síðar til falls ríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert