Saksóknarar í Bretlandi hafa hafið rannsókn á sjóslysi sem varð í morgun á Eystrasaltinu þar sem breskt skip og danskt skip rákust á. Tveggja er enn saknað eftir að danska skipinu hvolfdi.
Á vef BBC segir að slysið sé rannsakað sem glæpur vegna stórkostlegs gáleysis á sjó meðal annars vegna ölvunar. Áreksturinn varð á milli Ystad og Borgundarhólms.
Jonas Franzen, talsmaður sænsku siglingamálastofnunarinnar, sagði í samtali við sænska ríkisútvarpið að áhafnir á vettvangi hefðu heyrt hróp frá mönnum sem líklega höfnuðu í sjónum en neyðarkall barst um hálffjögurleytið í nótt að staðartíma.
Kafarar, þyrlur og bátar voru send á vettvang en leit bar engan árangur og var hætt nokkrum klukkustundum síðar.
Tildrög slyssins eru enn ókunn en lélegt skyggni var vegna þoku. Danska skipið var á leið til Danmörku frá Svíþjóð og hafði engan farm um borð.