Sjúklingur með Ómíkron-afbrigðið lést

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breti sem smitast hafði af Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar lést, að því er fram kemur í máli forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson. Hann greindi frá þessu samhliða því að hann kynnti að aukinn kraftur yrði settur í örvunarbólusetningu á landsvísu.

Þetta er talið vera fyrsta andlátið sem ríkisstjórn tilkynnir vegna Ómíkron-afbrigðisins.

Í heimsókn sinni til bólusetningarstöðvar í vesturhluta Lundúna sagði forsætisráðherrann að nýja afbrigðið teldist um 40% allra nýrra tilvika þar í borg og að innlögnum á sjúkrahús færi fjölgandi.

„Því miður hefur verið staðfest að einn sjúklingur lést með Ómíkron,“ sagði Johnson við blaðamenn. Degi fyrr hafði hann varað landa sína við nýja afbrigðinu í sjónvarpsávarpi.

Þar kynnti hann hertar samkomutakmarkanir í landinu til þess að stemma stigu við útbreiðslu afbrigðisins. Auk þess kynnti hann áðurnefnd áform um örvunarskammta og stendur nú öllum fullorðnum Bretum til boða að þiggja þriðju sprautuna. Johnson vonar væntanlega að fall sé fararheill í þeim efnum, enda lá skráningarkerfi opinberra heilbrigðisstofnana um bólusetningar niðri um tíma í gær vegna álags.

Uppfært kl. 16:03

Áður sagði að Breti hafi látist vegna Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Réttari þýðing á frétt AFP um málið er sú að sjúklingur, sem smitaðist af afbrigðinu hafi látist. Þetta hefur nú verið leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert