Tveir hafa verið handteknir vegna sjóslyssins sem varð á Eystrasaltinu í morgun þar sem tvö skip rákust á með þeim afleiðingum að öðru hvolfdi.
Sænska lögreglan handtók mennina en áreksturinn átti sér stað á milli Ystad og Borgundarhólms. Annar er Breti, fæddur árið 1991 og hinn er Króati, fæddur árið 1965. Þeir eru sakaðir um stórkostlegt gáleysi á sjó meðal annars vegna ölvunar.
Skipin sem rákust á voru frá Bretlandi og Danmörku en einn áhafnarmeðlimur danska skipsins hefur fundist látinn. Þá er annars enn saknað og telja björgunarsveitamenn ólíklegt að hann finnist á lífi.