Tjón af völdum náttúruhamfara og öfga í veðurfari á þessu ári er metið á um 250 milljarða dollara, eða sem jafngildir um 32,8 þúsund milljörðum kr. Þetta er 24% aukning á milli ára að sögn svissneska tryggingafyrirtækisins Swiss Re.
Sé einvörðungu litið til starfsemi tryggingafélaga þá höfðu öfgar í veðurfari eins og gríðarlegir kuldar, kraftmikil þrumuveður, hitabylgjur og öflugir fellibyljir mikil áhrif á rekstur þeirra, en tjónið er metið á um 105 milljónir dala. Frá árinu 1970 er það fjórða mesta upphæð sem rekja má beint til tjóns af völdum náttúruhamfara í heiminum að sögn Swiss Re., sem er eitt stærsta tryggingafélag heims.
Fyrirtækið segir ennfremur að tap tryggingarfélaga af völdum náttúruhamfara á þessu ári hafi aftur farið fram úr meðaltali síðastliðinna 10 ára.
Tvö af mestu tjónum sem rekja má til náttúruhamfara urðu í Bandaríkjunum að sögn Swiss Re. Fellibylurinn Ida olli tryggingatjóni sem var metið á um 30-32 milljarða dala, þar með talið eru gríðarleg flóð sem urðu í New York.
Þá varð mikið tjón í Texas þegar rafmagn sló út af völdum mikilla kulda og snjókomu í ríkinu, en tjónið er metið á um 15 milljarða dala.
Þegar litið er til Evrópu þá varð mest tjón m.a. Þýskalandi Belgíu í miklum flóðum. Efnahagslegur kostnaður er metinn á 40 milljarða dala en tryggingatjón metið á 13 milljarða dala.
Þá kemur fram í samantekt Swiss Re að stórslys af mannavöldum hafi verið metin á 9 milljarða dala, þ.e. efnahagslegt tjón. Það er 38% samdráttur á milli ára. Tryggingartjónið er metið 7 milljarða dala.