Biðja um aðstoð almennings í morðmáli auðkýfinga

Barry Sherman var einn ríkasti maður Kanada áður en hann …
Barry Sherman var einn ríkasti maður Kanada áður en hann lést. AFP

Lögregluyfirvöld í Toronto hafa beðið almenning um aðstoð við að bera kennsl á einstakling sem grunaður er um að hafa myrt kanadískan auðkýfing og eiginkonu hans fyrir fjórum árum. 

Frá þessu er greint á vef BBC.

Hjónin Barry og Honey Sherman fundust látin á heimili sínu þann 15. desember árið 2017. Stutt myndband hefur verið gert opinbert almenning þar sem einstaklingur sést á gangi nálægt heimili hjónanna sömu nótt og þau voru tekin af lífi.

Þetta mun vera eini einstaklingurinn sem náðist á myndbandsupptökur í nálægð við heimilið stuttu fyrir morðin sem lögreglunni hefur ekki tekist að auðkenna.

Fundust við sundlaugina á heimilinu

Barry Sherman, einn ríkasti maður Kanada og stofnandi lyfjafyrirtækisins Apotex, var 75 ára að aldri, og Honey Sherman var sjötug þegar þau fundust látin. Þau voru bæði þekkt fyrir störf sín í þágu mannúðar- og góðgerðarmála, og kom dauði þeirra mörgum í opna skjöldu. 

Lík þeirra beggja fundust við sundlaugina á heimilinu þar sem búið var að hengja þau með beltum og voru þau í hálfsitjandi stellingu við laugina að sögn lögreglu. Einhverjar tilgátur hafa verið uppi um að annað þeirra hafi framið morð og í kjölfarið tekið sitt eigið líf. Lögreglan telur þó líklegast að þau hafi bæði verið myrt og morðin hafi verið skipulögð.

Skilja ekki hvers vegna manneskjan var þarna

Brandon Price, lögreglumaðurinn sem fer fyrir rannsókn málsins, sagði að einstaklingurinn sem óskað er upplýsinga um á myndskeiðinu, hafi farið inn á vel afmarkað svæði í nálægð við heimili hjónanna sömu nótt og hjónin voru talinn hafa verið myrt.

Spurður af blaðamönnum hvers vegna lögreglan hefur einstaklinginn undir grun segir Price að erfitt sé að útskýra ferðir hans á þetta svæði og að þær hafi þótt grunsamlegar. Hann hafi komið á mjög afmarkað svæði, verið þar í einhvern tíma og farið svo.

Lögreglan biður þá sem kannast við þann grunaða að stíga fram en ekki hefur tekist að bera kennsl á kyngervi einstaklingsins, aldur, þyngd eða húðlit. Hæð þess grunaða er þó talin vera á bilinu 1,67 - 175 m og er hann sagður vera með einkennandi göngulag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert