Flestir þeirra sem drukknuðu íraskir Kúrdar

Flóttamaður ber barn sitt á strendur Englands eftir ferð yfir …
Flóttamaður ber barn sitt á strendur Englands eftir ferð yfir Ermasundið. AFP

Yfirvöld í Frakklandi hafa borið kennsl á 26 þeirra 27 flóttamanna sem létust í ferjuslysi í Ermasundi í lok nóvember. Flestir þeirra voru íraskir Kúrdar og enginn þeirra eldri en 46 ára. 

Að sögn saksóknara í Frakklandi voru það sautján menn og sjö konur sem létust, einn unglingur og eitt sjö ára barn. 

Auðkenning getur reynst flókin

Oft getur reynst erfitt að bera kennsl á flóttamenn þar sem þeir beri sjaldnast skilríki og fjölskyldur þeirra þurfi að ferðast um langan veg til þess að sjá líkin. 

Afganskur fréttaljósmyndari sagði AFP frá kynnum sínum af fjölskyldu sem var meðal fórnarlamba. Þrátt fyrir að hafa stuttu áður verið rekin úr flóttamannabúðum kröfðust þau þess að deila nestinu sínu með honum.

„Drengurinn vildi verða hárgreiðslumaður en elsta dóttirin listakennari,“ sagði ljósmyndarinn Abdul Saboor sem sagði þau einnig hafa spurt hann um veðráttuna á Englandi. 

Þegar fregnir af slysinu fóru að berast flykktust fjölskyldur flóttamanna inn á skrifstofu dánardómsstjórans í Lille til þess að ganga úr skugga um hvort þau hafi þekkt fórnarlömbin.

Málið spennti samband Frakklands og Bretlands enn frekar. Stuttu eftir slysið sakaði Emmanuel Macron, forseti Frakklands, Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, um að taka stöðunni með léttúð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert