Frá NATO yfir í seðlabankann?

Jens Stoltenberg kemur til álita sem næsti seðlabankastjóri Noregs.
Jens Stoltenberg kemur til álita sem næsti seðlabankastjóri Noregs. AFP

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), kemur til álita sem næsti seðlabankastjóri Noregs. Frá þessu greindi fjármálaráðherra landsins í dag. Samningur Stoltenberg við NATO rennur út á næsta ári. 

Stoltenberg er fyrrverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra Noregs. Hann er á meðal 22 einstaklinga sem hafa sótt um að verða næsti seðlabankastjóri landsins. Skipað er í embættið til sex ára í senn. 

Stoltenberg segir í svari við fyrirspurn AFP-fréttastofunnar að fjármálaráðuneytið hafi sett sig í samband við sig í nóvember til að athuga hvort hann hefði áhuga á starfinu. Stoltenberg, sem er 62 ára gamall, kveðst hafa mikinn áhuga á embættinu.

Hann hefur verið framkvæmdastjóri NATO frá árinu 2014 og núverandi samningur hans rennur út 30. september á næsta ári. 

Núverandi seðlabankastjóri er Oystein Olsen. Hann mun láta af embætti í febrúar.

Stoltenberg tók fram að hann hefði gert fjármálaráðuneytinu grein fyrir því, hljóti hann starfið, að hann geti ekki byrjað fyrr en eftir að samningi hans við NATO lýkur, eða frá og með 1. október. 

Núverandi aðstoðarseðlabankastjóri Noregs, Ida Wolden Bache, er einnig á meðal þeirra sem sækjast eftir starfinu, en fjármálaráðuneytið hafði einnig samband við hana fyrirfram. 

Fram kemur í umfjöllun AFP að námsmenn, pípulagningamaður, lífeyrisþegi og strætóbílstjóri séu einnig á meðal umsækjenda. 

Niðurstaðan verður kynnt í byrjun næsta árs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert