Ráðherra fór tvívegis með rangt mál

Dominic Raab.
Dominic Raab. AFP

Dominic Raab, varaforsætisráðherra Bret­lands, sagði 250 á spítala í Bretlandi með Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar í viðtali við Sky-fréttastofuna í morgun. Síðar fór hann í annað viðtal þar sem hann sagði níu á spítala með afbrigðið.

Að lokum var greint frá því að hið rétt er að tíu eru á spítala í Englandi með hið nýja afbrigði.

Raab sagði í samtali við Sky-fréttastofuna að margir væru á spítala með afbrigðið en hann gat ekki greint frá því hversu margir væru í öndunarvél.

Þegar þrýst var á Raab um tölur sagðist hann telja að 250 lægju inni með Ómíkron.

Í viðtali á BBC skömmu síðar hafði þeim sem liggja inni með Ómíkron fækkað um 241 frá fyrra viðtali.

„Ég veit að það hefur verið eitt dauðsfall. Ég held að það séu níu á spítala með afbrigðið,“ sagði Raab. Sú tala var nær lagi en alls eru tíu á spítala með Ómíkron.

Raab sagði sjálfur að hann hefði misheyrt spurninguna fyrst og hélt að talað væri almennt um sjúklinga með kórónuveiruna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert