Aldrei fleiri smit greinst í Bretlandi

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á blaðamannafundi í London í dag.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á blaðamannafundi í London í dag. AFP

Alls greindust 78,610 kórónuveirusmit í Bretlandi í gær en það er mesti fjöldi smita sem hefur greinst á einum degi frá upphafi faraldursins, að því er segir á vef BBC.

Áður höfðu mest greinst 68.053 smit og var það þann 8. janúar en þá var útgöngubann í Bretlandi.

Prófessor Chris Whitty, helsti heilbrigðisráðgjafi enskra stjórnvalda, varaði við því á blaðamannafundi að fleiri met munu koma til með að verða slegin á næstu vikum. 

Chris Whitty, helsti heilbrigðisráðgjafi enskra stjórnvalda.
Chris Whitty, helsti heilbrigðisráðgjafi enskra stjórnvalda. AFP

Hann bætti við að fólk ætti að forgangsraða þegar kemur að því ákveða hverja maður ætlar að umgangast í aðdraganda jóla. 

Sjúkrahúsinnlögnum fjölgar

Þá sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, það „algjörlega lífsnauðsynlegt,“ að allir fari í örvunarbólusetningu.

Hann varaði við því að á sumum svæðum væri smittíðnin að tvöfaldast á innan við tveimur dögum og bætti við: „Ég er hræddur um að við séum líka að sjá óumflýjanlega fjölgun sjúkrahúsinnlagna, um 10% á landsvísu, viku frá viku, og hækkun um næstum þriðjung í London.“

Whitty sagði að landið væri að upplifa tvo aðskilda faraldra, annan knúinn áfram af „mjög ört vaxandi“ Ómíkron-afbrigðinu og hinn af Delta afbrigðinu. „Ég er hræddur um að við verðum að vera raunsæ varðandi það að öll met verði slegin á næstu vikum þar sem smittíðnin heldur áfram að hækka,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert