Auðkýfingurinn Mikahíl Fedyayev hefur verið handtekinn vegna sprengingar sem varð í kolanámu í hans eigu í Síberíu. Alls lést 51 í sprengingunni.
Frá þessu greinir sérstök rannsóknarnefnd sem fer með rannsókn málsins.
Fram kemur í yfirlýsingu að búið sé að ákæra eiganda SDS-Ugol-fyrirtækisins og þrjá aðra aðila fyrir brot á öryggisreglum og misnotkun valds sem leiddi til sprengingarinnar í námunni.
Í kjölfar sprengingarinnar upplýstu námuverkamenn um fjölmörg önnur öryggisbrot á staðnum og sögðust þeir hafa verið neyddir til að vinna þrátt fyrir háan styrk metans á vettvangi.
Fedyayev hefur sagt að fyrirtækið hafi aldrei sparað í öryggisráðstöfunum.