Norska ríkisstjórnin hefur tapað rúmlega sjö prósentustigum frá því að kosið var samkvæmt síðustu könnunum. Talið er að Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn hafi samanlagt tapað um 400 þúsund kjósendum sem kusu flokkana í september en segjast nú ýmist segjast vilja kjósa aðra flokka eða skila auðu.
Aðeins þrír mánuðir eru liðnir frá kosningum.
Fram kemur í skoðanakönnun Verdens Gang, sem birt var í dag, að aðeins 22,6% norskra kjósenda myndu greiða Verkamannaflokknum atkvæði ef gengið yrði til kosninga í dag, en það er 3,8 prósentustigum færri en greiddu flokknum atkvæði í kosningunum í september.
Sömu sögu er að segja af samstarfsflokki Verkamannaflokksins í ríkisstjórn, Miðflokki (n Senterpartiet), og hefur hann tapað 3,6 prósentustigum frá kosningum og kveðjast 10% svarenda reiðubúnir til að kjósa flokkinn.
Niðurstöður könunnarinnar gefa einnig til kynna að um 250 þúsund kjósendur sem kusu Verkamannaflokkinn í síðustu kosningum hafa yfirgefið flokkinn, þar af myndu 100 þúsund skila auðu. Þá hefur norski Miðflokkurinn tapað um 150 þúsund kjósendum sem kusu hann í ksoningunum í september, þar af er helmingur sem myndi skila auðu.
Hægriflokkur Ernu Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra, mælist með 26,3% fylgi og er þar með stærsti flokkur Noregs samkvæmt könnuninni. Fylgi flokksins hefur aukist um sex prósentustig frá kosningum. Fylgi Framfaraflokksins stendur nánast í stað og mælist 11,4%.
Sósíalíski vinstriflokkurinn bætir við sig og mælist með 10,4% fylgi, sem er tæplega þriggja prósentustiga aukning frá kosningum. Framboð rauðra bætir einnig við sig og mælist það nú 6,1%.
Rafmagnsverð til heimila hefur verið mikið í umræðunni í Noregi að undanförnu, en þar eru hús hituð með rafmagni. Mikill orkuskortur er í Evrópu og er norska rafmagnsdreifikerfið tengt evrópska orkumarkaðnum, því þurfa norsk heimili nú að keppa við Evrópubúa um raforku.
Einnig hafa norsk stjórnvöld ákveðið að grípa til aðgerða vegna fjölda kórónuveirusmita í landinu og hafa meðal annars bannað veitingastöðum, kaffihúsum, hótelum og börum að selja áfengi.
„Síðastliðinn mánuður hefur einkennst af rafmagnskrísu, fjölgandi smitum og harðari aðgerðir gegn kórónuveirunni. Ríkisstjórnin er að sýna ábyrgð við krefjandi aðstæður, en margir eru óþolinmóðir og það skil ég vel,“ skrifar Kjersti Stenseng, ritari Verkamannaflokksins, í svari við fyrirspurn Verdens Gang vegna fylgistapsins.