Vanalega er hátíðarstemning í Kentucky um þessar mundir en þar eru nú þúsundir fjölskyldna í sárum vegna hvirfilbylja sem lamað hafa samfélagið. Andrew Humphrey, 13 ára, er einn þeirra sem staddir eru á heljarþröm enda nýorðinn heimilislaus. Hús fjölskyldu hans gjöreyðilagðist í óveðrinu síðustu helgi, sem sagt er vera eitt það versta í sögu Bandaríkjanna.
AFP ræðir við Andrew í sömu svipan og hann rótar í rústum íbúðar fjölskyldu sinnar, sem stóð á annarri hæð í fjölbýlishúsi í Dawson Springs, smábæ sem hefur að hluta verið jafnaður við jörðu. Andrew og eldri bræður hans tveir eru nú, ásamt fjölda annarra á svæðinu, að hefjast handa við hreinsunarstörf eftir óveðrið.
Jólalög, sveinki og skreytt jólatré eru æði fjarlægur munaður í þessum aðstæðum.
„Ég spái ekki mikið í jól eða gjafir,“ segir Andrew og klappar rykið af skærgulum vinnuhönskunum. Hann bætir þó við að hann sé þakklátur fyrir að hafa lifað ósköpin af og að fjölskylda hans öll sé heil á húfi. „Ég spái aðeins í að eignast heimili á ný,“ segir hann.
Þúsundum Kentucky-búa líður eins og þeim hafi verið kastað inn í þvottavél á mesta snúningi – lífi þeirra hefur verið gjörbreytt. Minnst 74 létust í óveðrinu, þúsundir eru heimilislausar og margir íbúar í algjörri óvissu.
Britainy Beshear, eiginkona ríkisstjórans Andys Beshears, tilkynnti í gær að yfirvöld ætluðu að gefa börnum í neyð gjafir um jólin svo enginn yrði út undan. Framlögum til verkefnisins rignir inn. Á lögreglustöðinni í Paducah, smábæ sem slapp betur við ósköpin, liggja hundruð gjafa í plastinu og bíða þess að komast til barna sem engar gjafir frá.
Aðspurður segist Andrew, sem er mikill tölvuleikjaunnandi, helst vilja nýja leikjatölvu í jólagjöf, þar sem hans tölva liggur líklegast ónýt á jörðinni innan um gifsplötur, gólfflísar og spýtnabrak.
„Það væri gaman að fá nýja Xbox-tölvu og nýtt sjónvarp,“ viðurkennir Andrew og fær verðskuldað glott frá móður sinni.
Ginny Watts er 37 ára og á dóttur sem varð fjögurra aðeins degi áður en hvirfilbyljirnir eyðilögðu heimili þeirra. Hún segir að Cavvy átti sig á því að húsið þeirra sé „bilað“ en hún geri sér ekki grein fyrir hversu hræðilegt það í raun og veru er og hvaða þýðingu það gæti haft fyrir jólahald þetta árið.
„Ég vona bara að við getum gert þetta að sérstökum degi,“ segir Watts fyrir utan ónýtt heimili sitt, sem þó var nýuppgert fyrir storminn.
Þegar Cavvy spyr um komu jólasveinsins segir Watts að hún segi við dóttur sína: „Jólasveinninn kemur hvar sem við verðum, gullið mitt.“
„Núna einhvern veginn átta allir hérna sig á um hvað jólin snúast í raun og veru,“ segir Watts og talar um tilfinningalegt gildi hátíðanna. „Þetta snýst ekki bara um dót og þannig lagað.“
Debbie Cancler er 69 ára gamall nágranni þeirra mæðgna og hún rótar í rústunum og reynir að finna persónulega muni og ljósmyndir sem má bjarga. Hús hennar er ekki lengur það sem það var, en þrátt fyrir það tekst Cancler að finna nokkur náttfatasett, enn í pakkningunum, sem hún hugðist gefa börnum og barnabörnum í jólagjöf. Hún segist vona að afkomendur hennar fái þótt ekki væri nema hálftíma stund á jóladag þar sem verður hægt að gleyma ósköpunum sem yfir þau dundu.
„Við lifum áfram,“ segir hún. „Það verður í lagi með okkur … einhvern tímann.“