Hollenskum stjórnmálamanni hefur verið meinað af hollenskum dómstólum að birta efni á samfélagsmiðlum þar sem samkomutakmarkanir vegna Covid-19 eru bornar saman við helförina.
Í dómnum sem féll um málið í dag var manninum gert að fjarlægja allt efni af samfélagsmiðlum sem hefur nú þegar birst þar sem um ræddur samanburður á sér stað. Var honum gefinn 48 klukkustunda frestur til að verða við þeirri skipun.
Fari hann gegn skipun dómara gæti hann átt von á 25 þúsund evra sekt daglega. Það nemur um 3,7 milljónum íslenskra króna.
Thierry Baudet, stjórnmálamaðurinn sem um ræðir, er þekktur fyrir að vera í nöp við sóttvarnaaðgerðir vegna Covid-19 og hefur hann verið duglegur að tjá skoðanir sínar um aðgerðir yfirvalda á samfélagsmiðlum.
„Hinir óbólusettu eru nýju gyðingarnir, þeir sem líta fram hjá útilokunum eru nýju nasistarnir,“ skrifaði Baudet meðal annars í færslu sem birtist á Twitter.
Þá birti hann einnig samsetta mynd sem innihélt annars vegar ungan hollenskan strák sem var meinaður aðgangur að jólahátíð og hins vegar gyðing fyrir framan pólskt gettó á stríðsárunum, rétt áður en hann var tekinn á brott.
Auk þess birti hann mynd af Buchenwald útrýmingarbúðunum í Þýskalandi og meðfylgjandi voru ummælin: „Hvernig er það mögulegt að sjá ekki söguna endurtaka sig.“
Baudet var stefnt fyrir ummælin af samtökum gyðinga og eftirlifandi fórnarlömbum seinni heimsstyrjaldarinnar og féll dómurinn honum ekki í hag.
Að mati dómarans var samanburðurinn óréttmætur og móðgandi fyrir fórnarlömb helfarinnar og ættingja þeirra, og taldi hann Baudet gera lítið úr örlögum gyðinganna. Þótti dómaranum brýna þörf á því að grípa inn í til að vernda hagsmuni eftirlifendur helfarinnar, fjölskyldur þeirra, og almenna orðræðu samfélagsins.
Baudet var að ekki sáttur við niðurstöðu dómara og hyggst hann áfrýja dómnum, ef marka má færslu hans á Twitter. „Óskiljanlegur og ruglaður dómur. Við erum reið og þurfum að berjast.“