Örvunarskammtar af bæði bóluefni Moderna og Pfizer gegn kórónuveirunni munu líklega veita verulega aukna vörn gegn hinu nýju og mjög svo smitandi Ómíkron-afbrigði að sögn Dr. Anthony S. Fauci sóttvarnalæknis Bandaríkjanna. The New York Times greinir frá.
Dr. Fauci bætti þá við að á þessum tímapunkti væri engin þörf fyrir örvunarskammt sem er sérstaklega hannaður til að berjast gegn Ómíkron.
Dr. Fauci deildi bráðabirgðagögnum frá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) um Moderna bóluefnið, sem sýna að þó svo að tveir skammtar hafi framkallað hverfandi mótefnasvörun gegn Ómíkron á rannsóknarstofunni, jókst vörnin verulega eftir þriðja skammt, sem bendir til skyndilegrar aukningar í smitum hjá fullbólusettum einstaklingum sem hafa ekki enn fengið örvunarskammt.
Þá sagði hann skilaboðin skýr: „Ef þú ert óbólusettur skaltu láta bólusetja þig, þá sérstaklega á svæðum þar sem eru Ómíkron smit, og ef þú ert fullbólusettur, fáðu örvunarskammtinn þinn.“
Áminning Dr. Fauci kemur á sama tíma og embættismenn Biden-stjórnarinnar búa sig undir hugsanlega bylgju Ómíkron-smita sem gætu reynst heilbrigðiskerfinu ofviða.
Sóttvarnastofnunin varaði nýlega við því að hlutfall kórónuveirutilfella í Bandaríkjunum af völdum Ómíkron-afbrigðisins hafi aukist verulega og gæti boðað verulega aukningu smita í næsta mánuði.