Segja rússneska ríkið hafa fyrirskipað morðið

Vadim Krasikov hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir morðið á …
Vadim Krasikov hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir morðið á Georgíumanninn Zelimkhan Khangoshvili. AFP

Dómstóll í Þýskalandi hefur dæmt Rússann Vadim Krasikov í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa skotið Georgíumanninn Zelimkhan Khangoshvili til bana í Kleiner Tiergarten almenningsgarðinum í Berlín í ágúst 2019, að því er segir í frétt BBC. 

Þá sögðu dómararnir að rússneska ríkið hefði fyrirskipað morðið, en það hefur neitað ásökunum.

Niðurstaða dómstólsins gæti skaðað samskipti Þýskalands og Rússlands, sem voru stirð fyrir. Í yfirlýsingu sagði Sergei Nechayev, sendiherra Rússlands í Þýskalandi, að dómurinn væri „ákvörðun af pólitískum hvötum.“

Khangoshvili, sem um tíma gekk undir nafninu Tornike Kavtarashvili, var leiðtogi hersveitar Tsjetsjena á árunum 2000 til 2004, þegar Tsjetsjnía barðist í sjálfstæðisstríði gegn Rússlandi. Hann hafði verið hælisleitandi í Þýskalandi síðan 2016. 

Saksóknarar sögðu að Krasikov hafi komið aftan að Khangoshvili á reiðhjóli og hleypt af skoti á miðjan líkama hans með Glock 26 skammbyssu. Hann hafi síðan skotið tveimur skotum til viðbótar í höfuð fórnarlambsins þar sem hann lá á jörðinni og drap hann, að sögn saksóknara. En Krasikov var handtekinn skömmu eftir morðið.

Árásarmaðurinn hafi tilheyrt leyniþjónustu Rússlands

Á meðan á réttarhöldunum stóð sögðu saksóknarar að árásarmaðurinn hefði starfað samkvæmt skipunum frá Rússlandi og að hann tilheyrði sérstakri deild leyniþjónustu þess, FSB.

Saksóknarar sögðu að hann hefði flogið frá Moskvu til Parísar og þaðan til Varsjár, áður en hann kom til Berlínar, með vegabréfi undir nafninu Vadim Krasikov.

Til varnar Krasikov sögðu lögfræðingar hans að hinn grunaði væri byggingarstarfsmaður og skilgreindi sig sem Vadim Sokolov og neitaði að vera þekktur sem Krasikov. Þá sögðust lögfræðingarnir ekki þekkja neinn sem héti þessu nafni.

„Rússnesk ríkisyfirvöld skipuðu ákærða að drepa fórnarlambið,“ sagði Olaf Arnoldi, forseti dómstólsins í Berlín, eftir dómsuppkvaðninguna.

„Sumir fjölmiðlar sögðu að Rússland eða jafnvel [Rússneska forsetinn] Vladimír Pútín væri fyrir rétti hér,“ sagði dómarinn. „Það er villandi: aðeins hinn dæmdi er á bekknum. En verkefni okkar felur í sér að skoða aðstæður glæpsins.“

Áður fyrirskipað morð á Tsetsjena

Rússland hefur áður verið tengt við dauða annarra Tsjetsjena. Árið 2004 voru tveir rússneskir ríkisborgarar dæmdir í Katar fyrir morðið á fyrrum leiðtoga Tsjetsjena, Zelimkhan Yandarbiyev. Þeir voru dæmdir í lífstíðarfangelsi af dómstólnum sem komst að þeirri niðurstöðu að þeir störfuðu samkvæmt skipunum frá rússneskum stjórnvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert