110 þúsund fölsuð Covid-vottorð í umferð

Fólk á gangi í borginni Bordeaux í suðurhluta Frakklands.
Fólk á gangi í borginni Bordeaux í suðurhluta Frakklands. AFP

Um 110 þúsund fölsuð heilbrigðisvottorð eru í umferð í Frakklandi, að sögn innanríkisráðuneytis landsins.

Rannsóknir á þeim sem hafa búið til og notað vottorðin skipta hundruðum.

Vottorðin hafa að geyma sönnun fyrir bólusetningu við kórónuveirunni, að fólk hafi þegar fengið veiruna eða að það hafi fengið neikvæða Covid-niðurstöðu. Sýna þarf fram á þau til að geta notað almenningssamgöngur, farið á veitingastaði eða menningarviðburði.

Rannsóknir lögreglunnar hafa sýnt að starfsfólk innan heilbrigðisgeirans, meðal annars læknar og hjúkrunarfræðingar, tekur þátt í svikunum, að sögn Geralds Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands.

Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands.
Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands. AFP

Um 100 manns hafa verið handteknir í Frakklandi í kjölfar 400 rannsókna eftir að fólk var skyldugt til að nota heilbrigðisvottorðin dagsdaglega.

Fólkið á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi. Þegar hafa einhverjir verið dæmdir í skilborðsbundið eða jafnvel óskilorðsbundið fangelsi.

Í síðasta mánuði var læknir sem var sakaður um að hafa selt að minnsta kosti 220 fölsuð heilbrigðisvottorð handtekinn og kærður.

Lögreglumenn sinna eftirliti á jólamarkaði í Strasbourg í París.
Lögreglumenn sinna eftirliti á jólamarkaði í Strasbourg í París. AFP

Darmanin segist vera fylgjandi því að fella niður mál gegn notendum falsaðra vottorða sem samþykkja að útvega sér löglegt vottorð í staðinn.

Frönsk stjórnvöld vara við því að fjöldi Covid-sjúklinga á gjörgæslu gæti farið í fjögur þúsund um jólin, en í dag eru þeir þrjú þúsund talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert