Alls sitja 488 fjölmiðlamenn í fangelsum víða um heiminn en það er mesti fjöldi sem mælst hefur frá því frjálsu félagasamtökin Fréttamenn án landamæra hófu eftirlit og skráningu með slíkum málum fyrir meira en 25 árum síðan.
Er það aukning um 20% frá fyrra ári sem má rekja til herferða stjórnvalda í Mjanmar, Hvíta Rússlandi og Hong Kong. Langflestir fjölmiðlamenn hafa verið fangelsaðir í Kína eða 127. Samtökin rekja það til breytinga á þjóðaröryggislögum sem gerðar voru árið 2020, að því er fréttastofa AFP greinir frá.
53 fjölmiðlamenn sæta fangelsisvist í Mjanmar, 42 í Víetnam, 32 í Hvíta Rússlandi og 31 í Sádi Arabíu.
Þá hafa aldrei fleiri kvenkyns blaða- og fréttamenn setið á bak við lás og slá en þeir eru um sextíu talsins, sem er þriðjungi meira en á síðasta ári.
Aftur á móti hafa aldrei færri blaða- og fréttamenn látið lífið vinnu sinnar vegna en 46 létu lífið í tengslum við störf sín á árinu.
Fækkun þeirra fjölmiðlamanna sem láta lífið við störf sín má rekja til minnkandi átaka í Sýrlandi, Jemen og Írak, að því er samtökin greina frá í tilkynningu sinni. Þar segir einnig að 65% þeirra fjölmiðlamanna sem látist hafa á árinu hafi hreinlega verið aflífaðir.
Enn virðast blaða- og fréttamenn í Mexikó og Afganistan vera í mestri hættu en í Mexíkó létust sjö á árinu og sex í Afganistan. Indland og Jemen koma svo næst á eftir en þar létust fjórir fjölmiðlamenn á árinu.
Þá greina samtökin einnig frá því að 65 fjölmiðlamönnum sé nú haldið í gíslingu, þar af 64 í miðausturlöndum og einn í Afríkuríkinu Malí.