Býst við „yfirþyrmandi“ smittölum vegna Ómíkron

Jenny Harries var ómyrk í máli frammi fyrir nefndinni.
Jenny Harries var ómyrk í máli frammi fyrir nefndinni. AFP

Jenny Harries, framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunar Bretlands, hefur sagt Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar „líklega alvarlegustu ógnina“ í faraldrinum síðan hann hófst. Þá varar framkvæmdastjóri heilbrigðisþjónustu Bretlands (NHS) við því að met verði sett í spítalainnlögnum í Bretlandi á næstunni vegna fjölgunar Ómíkron-smita. 

Guardian greinir frá þessu.

Eins og greint var frá í gær munu örvun­ar­skammt­ar af bæði bólu­efni Moderna og Pfizer gegn kór­ónu­veirunni lík­lega veita veru­lega aukna vörn gegn hinu nýju og mjög svo smit­andi Ómíkron-af­brigði að sögn Dr. Ant­hony S. Fauci sótt­varna­lækn­is Banda­ríkj­anna. Slíkir örvunarskammtar standa Íslendingum nú þegar til boða. 

Í samtali við mbl.is í gær sagði Magnús Gott­freðsson, pró­fess­or í smit­sjúk­dóm­um og yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala, að skoða verði rann­sókn­ir frá Suður-Afr­íku, sem gefa til kynna að Ómíkron-af­brigði kór­ónu­veirunn­ar valdi væg­ari ein­kenn­um en fyrri af­brigði, í far­ald­urs­fræðilegu sam­hengi. Ekki sé endi­lega hægt að bera sam­an aðstæður í mis­mun­andi heims­hlut­um.

Örvunarskammtur af bóluefnum Pfizer og Moderna virðast hjálpa til við …
Örvunarskammtur af bóluefnum Pfizer og Moderna virðast hjálpa til við vörn gegn Ómíkron. AFP

Býst við „stórkostlegum vexti“ vegna Ómíkron

Harries sagði við nefnd innan breska þingsins í gær að enn væri of snemmt að dæma um mögulega hættu sem stafar að heimsbyggðinni vegna Ómíkron-afbrigðisins en að faraldurinn væri að „vaxa hraðar“. Þá sagði hún þingmönnum að búast við „stórkostlegum vexti“ í faraldrinum á næstu dögum. 

„Þetta er líklega stærsta ógnin sem við höfum staðið frammi fyrir síðan í byrjun faraldurs. Ég er viss um að tölurnar sem við munum sjá á næstu dögum verði yfirþyrmandi miðað við þann vaxtarhraða sem við höfum séð í tilvikum fyrri afbrigða,“ sagði Harries.

„Raunveruleg hugsanleg áhætta hér – og ég vil undirstrika það vegna þess að við erum enn að læra ýmislegt um afbrigðið – snertir alvarleika þess, klínískan alvarleika og þar af leiðandi hvort þessi smit muni leiða af sér alvarlegan sjúkdóm, sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll. Það er enn of snemmt að segja til um slíkt.“

Amanda Pritchard býst við fleiri sjúkrahúsinnlögnum vegna Ómíkron.
Amanda Pritchard býst við fleiri sjúkrahúsinnlögnum vegna Ómíkron. AFP

Undirbúa sig fyrir mögulega bylgju sjúkrahúsinnlagna

Sjö daga meðaltal fyrir daglegar sjúkrahúsinnlagnir vegna Covid-19 í Englandi er sem stendur 752. Amanda Pritchard, framkvæmdastjóri NHS á Englandi, sagði þingmönnum að sjúkrahúsinnlagnir gætu orðið fleiri í Bretlandi en síðasta vetur. Metið var 3.812 þann 9. janúar. 

Pritchard sagði nú allt kapp lagt í örvunarbólusetningu á sama tíma og starfsfólk NHS „undirbýr sig fyrir mögulega bylgju sjúkrahúsinnlagna.“

„Við vitum ekki hvað mun gerast en eins og stendur eru vísbendingar uppi um að þessi bylgja gæti orðið jafn stór eða stærri en bylgjan sem varð á sama tíma í fyrra. Þannig að við búum okkur nú undir það,“ sagði Pritchard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert