Fjögur ung börn létust og nokkur önnur slösuðust þegar vindhviða blés hoppukastala þeirra upp í loftið í veislu í Ástralíu í dag. Börnin sem létust, tveir drengir og tvær stúlkur, voru um ellefu ára gömul.
Börnin voru að leik í kastalanum þegar vindhviðan blés honum upp á við og féllu börnin úr um 10 metra hæð.
Veislan sem atvikið varð í var haldin til þess að fagna skólalokum fyrir jólafrí.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, sagði atvikið „ólýsanlega átakanlegt.“
„Ung börn sem voru að skemmta sér... og svo verður það að svona hræðilegum harmleik. Á þessum tíma ársins þá brýtur það bara í manni hjartað,“ sagði Morrison.
Viðbragðsaðilar mættu á svæðið klukkan 10 í morgun að staðartíma. Skyndihjálp var framkvæmd áður en börnunum var flogið á sjúkrahús.
Nokkur banvæn hoppukastalaslys hafa orðið á síðustu árum. Árið 2019 létust tvö börn og 20 særðust í svipuðu atviki í Kína. Ári fyrr lést stúlka sem hentist úr hoppukastala í Norfolk Bretlandi. Sjö ára stúlka lenti í hinu sama í Essex í Bretlandi árið 2016. Tveir menn voru dæmdir fyrir mannsdráp af gáleysi vegna andláts hennar.
Þá slösuðust tíu börn í hoppukastalaslysi á Akureyri fyrr á árinu. Enginn lést í því atviki.