Yfirvöld í Frakklandi hafa ákveðið að þeir sem ferðast frá Bretlandi, og hafa ekki lögheimili í Frakklandi, verði að hafa mjög ríka ástæðu fyrir heimsókninni til að fá að koma inn í landið. Fjölskylduheimsóknir falla þar undir en hvorki almenn ferðalög né vinnuferðir. Flutningabílstjórar fá þó undanþágu frá reglunum. BBC greinir frá.
Þá verða allir sem koma til Frakklands frá Bretlandi að skila inn neikvæðu covid-prófi sem má ekki vera eldra en 24 tíma. Einnig verður öllum gert gera grein fyrir ferðalaginu rafrænt og gefa upp dvalarstað í Frakklandi.
Í Frakklandi tekur við vika í sóttkví en hægt er að stytta þann tíma niður í tvo sólarhringa með því að skila inn öðru neikvæðu covid-prófi.
Þessar reglur, sem taka gildi á miðnætti á föstudag, eiga bæði við bólusetta og óbólusetta en fram að þessu hefur síðarnefndi hópurinn aðeins þurft að sæta þessum reglum.
Frönsk yfirvöld ráða fólki einnig frá því að ferðast til Bretlands.
Tilgangurinn með hertum reglum er að reyna að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar í Frakklandi.
78.610 smit kórónuveirusmit greindust í Bretlandi á miðvikudag, en það er metfjöldi smita frá upphafi faraldursins. Um 10 þúsund smit af völdum Ómíkron-afbrigðisins hafa verið staðfest þar í landi, ef afbrigðið breiðist hratt út.
Í Frakklandi greindust 65.713 smit í gær, en aðeins hafa 240 tilfelli af Ómíkron-afbrigðinu verið staðfest.