Framleiða föt fyrir tískukeðjur en fá ekki lágmarkslaun

Ítrekað hefur þess verið krafist að laun starfsfólksins verði leiðrétt.
Ítrekað hefur þess verið krafist að laun starfsfólksins verði leiðrétt. Ljósmynd/Colourbox

Konur sem starfa við fjöldaframleiðslu á fatnaði í Karnataka á Indlandi, fyrir stórar alþjóðlegar tískukeðjur, segja að börnin sín séu svöng þar sem verksmiðjurnar neiti að greiða þeim lágmarkslaun samkvæmt indverskum lögum. Mögulega er um að ræða mesta launaþjófnað sem átt hefur sér stað í tískuiðnaðnum, að fram kemur umfjöllun The Guardian um málið. Um er að ræða þekktar keðjur á borð við H&M, Zara, Nike, Puma og fleiri.

Yfir 400 þúsund starfsmenn í fataiðnaði í Karnataka hafa ekki fengið greidd lámarkslaun síðan í apríl árið 2020, samkvæmt alþjóðlegum samtökum, The Worker Rights Consortium (WRC), sem fylgjast með því að réttindi starfsfólks í fataiðnaði séu virt. Eins að lágmarkslaun séu greidd og vinnuaðstæður séu viðunandi. Telja samtökin að starfsfólkið hafið verð snuðað um að minnsta kosti 41 milljón punda.

Börnin svöng svo fyrirtækin græði meira

Haft var eftir einum starfsmanni að það sem hún fengi í laun dygði aðeins fyrir um helmingi nauðsynlegra útgjalda, eins og mat og leigu. „Ef við hefðum fengið launahækkunin sem við áttum að fá á síðasta ári, gætum við að minnsta kosti borðað grænmeti nokkrum sinnum í mánuði. Ég get aðeins boðið fjölskyldunni upp á hrísgrjón og chutney sósu,“ sagði starfsmaðurinn.

Um er að ræða konu sem reyndi að ræða málið við yfirmann sinn í verksmiðjunni en hann sagði henni að þetta væru launin sem væru greidd þar. Ef hún væri ekki ánægð með það gæti hún farið.

Scott Nova, framkvæmdastjóri WRC, sagði í samtali við The Guardian að ef tekið væri mið af fjölda þeirra starfsmanna sem málið snerti og þær upphæðir sem væri um að ræða, væri þetta mesti launaþjófnaður sem þeir hefðu orðið vitni að. „Börn starfsmanna í fataiðnaði eru svöng svo fyrirtækin græði sem mest.“

Áhugaleysið skammarlegt

Í Karnataka er mikill fjöldi fataverksmiðja með hundruð þúsunda starfsmanna sem framleiða föt fyrir þekktar tískukeðjur á borð við Puma, Nike, Zara, Tesco, C&A, Gap, Marks & Spencer og H&M.

Nova sagði að „áhugaleysi og aðgerðarleysi“ keðjanna sem létu starfsmenn þessara verksmiðja, aðallega fátækar konur, framleiða fyrir sig vörur, vera skammarlegt og grimmdarlegt.

Samtökin hefðu ítrekað krafist þess við forsvarsmenn keðjanna í næstum tvö ár að bæta úr þessu en þeir hafi annað hvort neitað að grípa inn í eða fullyrt að þeir sem framleiddu fötin þeirra fengju greitt samkvæmt indverskum lögum. Nova sagði að tískukeðjurnar létu þetta viðgangast vitandi að það þær gætu stöðvað þennan launaþjófnað.

„Að sjá til þess að lágmarklaun séu greidd eru lágmarks skyldur þessara tískukeðja gagnvart starfsfólkinu. Ef þess er ekki krafist er verið að virða mikilvæg mannréttindi að vettugi.“

Í svörum frá flestum tískukeðjanna, sem The Guardian birtir í grein sinni, kemur fram að þær telji sig vera að greiða lágmarkslaun og að þær kröfur séu gerðar á eigendur verksmiðjanna. Einhverjar sögðust ætla að ganga úr skugga um að þannig væri það örugglega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert