Stálu heilli brú

Lögreglan á svæðinu hefur biðlað til íbúa að vera á …
Lögreglan á svæðinu hefur biðlað til íbúa að vera á varðbergi fyrir brúnni, en áttar sig engan veginn á því hvers vegna einhver hafi áhuga á að stela heilli göngubrú. AFP

Lögreglan í Akron, Ohio í Bandaríkjunum, leitar nú þjófa sem námu á brott tæplega átján metra langa brú.

Um er að ræða göngubrú sem lá yfir Cuyahoga ána, en hafði verið fjarlægð og geymd á grasreit í grenndinni vegna friðunaraðgerða á svæðinu.

Því miður virðist sem óprúttnir aðilar hafi rennt hýru auga til brúarinnar og séð sér leik á borði. Brúnni var stolið í tveimur áföngum. Fyrst voru plöturnar úr henni fjærlægðar og því næst grindin sjálf.

Lögreglan á svæðinu hefur biðlað til íbúa að vera á varðbergi fyrir brúnni, en áttar sig engan veginn á því hvers vegna einhver hafi áhuga á að stela heilli göngubrú, og þess þó heldur hvaða not viðkomandi hafi fyrir hana.

Greint var frá þessu á fréttamiðli Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert