Kveikt í sænskri jólageit

Geitin áður en hún fuðraði upp.
Geitin áður en hún fuðraði upp. AFP

Kveikt var í jólageit í sænska bænum Gävle snemma í morgun. Geitinni hefur árlega verið komið upp rétt fyrir jól frá árinu 1966 og hefur hún sloppið ósködduð síðastliðin fimm ár en oft hefur verið reynt að kveikja í henni eða velta af stalli sínum.

Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn en hann er talinn hafa kveikt í geitinni.

Rebecca Steiner, talsmaður bæjaryfirvalda, sagðist miður sín vegna brunans.

„Þetta er viku fyrir jól og ég skil ekki hvernig einhverjum dettur í hug að ráðast svona á táknræna jólageit,“ sagði Steiner við BBC.

Steiner sagði að geitin hefði verið vöktuð en erfitt hefði verið að finna jafnvægi á milli öryggisvarða og þess að fólk gæti notið þess að bera geitina augun.

Maðurinn sem var handtekinn neitar því að hafa kveikt í geitinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert