Öll spjót beinast að Johnson eftir ósigur

Boris Johnson á bólusetningarmiðstöð í Bretlandi í gær.
Boris Johnson á bólusetningarmiðstöð í Bretlandi í gær. AFP

Leiðtogahæfni Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var dregin í efa í morgun eftir að Íhaldsflokkurinn, sem hann leiðir, tapaði kosningum í kjördæmi þar sem flokkurinn hefur aldrei áður beðið ósigur.

Johnson sagðist í sjónvarpsviðtali bera persónulega ábyrgð vegna tapsins og sagði niðurstöðuna „mjög mikil vonbrigði.”

„Með fullri auðmýkt, þá verð ég að sætta mig við þessa niðurstöðu,” bætti hann við og sagðist skilja „óánægju fólks” og „það sem kjósendur í Norður-Shropskíri eru að segja”.

Þessi tíðindi bætast á ofan umræðu undanfarinna vika um að Johnson sé ekki starfi sínu vaxinn vegna ásakana um spillingu og fregna um að hann og starfslið hans hafi brotið gegn samkomubanni síðustu jól.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur ný bylgja kórónuveirusmita með Ómíkron-afbrigðinu herjað á Breta undanfarið en næstum 89 þúsund ný smit greindust í landinu í gær. 100 af þingmönnum Íhaldsflokksins mótmæltu harðlega áætlunum ríkisstjórnarinnar um bóluefnavottorð fyrir fólk sem ætlar að sækja fjölmenna viðburði.

Helen Morgan flytur sigurræðu sína.
Helen Morgan flytur sigurræðu sína. AFP

Aðeins tvö ár eru liðin síðan Íhaldsflokkurinn náði sínum stærsta meirihluta í kosningum í  Norður-Shropskíri á Mið-Englandi frá árinu 1987. Í gær töpuðu þeir aftur á móti stórt fyrir frjálslyndum demókrötum og hlaut Helen Morgan þingsæti fyrir þeirra hönd.

„Fólkið í Norður-Shropskíri hefur talað fyrir hönd bresks almennings,” sagði Morgan í sigurræðu sinni. „Það hefur sagt skýrt og greinilega: Boris Johnson, partíið er búið.”

Bætti hún við að ríkisstjórn hans hafi ekki staðið sig í stykkinu, hún hafi logið að almenningi og að hún þurfi að svara til saka vegna þess.

Vantrauststillaga í vændum?

Einhverjir hafa spáð því að vantrauststillaga gagnvart Johnson sé í burðarliðnum til að knýja fram atkvæðagreiðslu íhaldsmanna í von um að losna við hann úr embætti.

Forvera hans, Theresu May, var einmitt ýtt í burtu um mitt ár 2019 eftir að þingmenn, þar á meðal Johnson, greiddu atkvæði gegn Brexit-samningi hennar á þinginu.

„Íhaldsflokkurinn er þekktur fyrir að gefa lítinn grið. Ef forsætisráðherrann stendur sig ekki í stykkinu þá hverfur hann á braut,” sagði þingmaðurinn Roger Gale við BBC Radio.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert