Armbönd og aðrir aukahlutir sem framleiddir eru í þeim tilgangi að „vernda“ fólk frá 5G-geislun, reyndust geislavirkir. Á meðal þeirra er armband ætlað börnum, merkt Magnetix Wellness. Greint er frá þessu á fréttavef BBC.
Geislavarnir hollenska ríkisins komust að þessari niðurstöðu og hafa varað við tíu vörum af þessari gerð, sem gáfu frá sér hættulega geislun. Hafa þær sömuleiðis hvatt fólk til þess að sniðganga vörurnar þar sem langvarandi notkun þeirra gæti haft hættulegar afleiðingar.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið út að 5G-net séu ekki skaðleg og í meginatriðum ekki frábrugðin 3G- og 4G-neti.
Þrátt fyrir þetta er til staðar fjölmennur hópur fólks sem trúir á skaðsemi 5G-nets, sem er markhópur fyrir fyrirtæki sem selja hluti á borð við svefngrímur, armbönd og hálsmen.