Áttavilltur hlébarði ráfaði inn í hús

Ekki er óalgengt að hlébarðar ráfi inn í hús og …
Ekki er óalgengt að hlébarðar ráfi inn í hús og jafnvel inn á heimili fólks í Afríku. Ljósmynd/Philippa Huguen

Hlébarða, sem villst hafði frá heimili sínu í Tsavo-þjóðgarðinum í Suðaustur-Keníu og ráfað inn í hús, var bjargað af landvörðum á fimmtudag.

Talið er að hlébarðinn hafi villst frá hinum víðfeðma garði á fimmtudaginn síðastliðinn og farið inn í nágrannabæinn Voi, sem er í um 150 kílómetra fjarlægð frá strandborginni Mombasa, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

Í myndbandi sem Daily Nation deildi í tísti í gær má sjá landverði bera hlébarðann út úr húsinu og upp í bíl eftir að hafa gefið honum róandi lyf og hulið höfuð hans með klút, á meðan æstur múgur reynir að mynda atburðinn.

Áttu heima þarna á undan

Innt viðbragða virtist talskona dýraverndarsamtaka í Keníu þó lítið kippa sér upp við atburðinn en hún segir ekkert óvenjulegt við það að dýr villist út fyrir garðinn.

„Þetta var ekkert stórmál. Þetta gerist mjög oft,“ segir Teresia Igira í samtali við AFP, og bætir því við að enginn hafi slasast.

Þótt tilfellum þar sem villt og hættuleg dýr ganga lausum hala í samfélagi manna hafi farið fjölgandi undanfarin ár er afar sjaldgæft að menn hljóti mein af göngutúrum þeirra.

Stundum getur brölt þessara dýra þó endað með skelfingu.

Til dæmis varð ljón manni að bana rétt fyrir utan Nairobi-garðinn, sem girtur er af með rafmagnsgirðingum, í desember 2019.

Þá var kattardýr frá sama garði skotið eftir að hafa ráðist á og sært nærliggjandi íbúa í mars 2016.

Náttúruverndarsinnar vilja þó meina að ljónin séu hvorki að flýja garðana né að villast inn í mannabyggðir. Þvert á móti hafi ljónin átt heima á svæðinu fyrst og að fólk hafi flust inn á búsvæði þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert