Óttast aðra martröð í New York

Stund milli stríða hjá starfsmanni veitingastaðar í New York fyrr …
Stund milli stríða hjá starfsmanni veitingastaðar í New York fyrr í mánuðinum. AFP

Á meðan sífellt fleiri veitingastaðir í Brooklyn loka dyrum sínum og raðir fyrir utan sýnatökustöðvar lengjast með degi hverjum, þá fer ótti stigvaxandi í New York-borg um að martröðin í mars 2020 muni endurtaka sig.

„Þetta minnir mjög á mars á síðasta ári,“ segir Spencer Reiter, 27 ára íbúi Brooklyn sem vinnur í fjármálageiranum, í samtali við fréttastofu AFP.

Hann beið í röð eftir sýnatöku fyrr í dag ásamt vinkonu sinni Katie Connolly, 27 ára nema, eftir að vinir þeirra höfðu greinst með kórónuveirusmit.

Sólsetur í New York á fimmtudag.
Sólsetur í New York á fimmtudag. AFP

Minntu á vísindaskáldskap

„Að sjá þessar raðir ... þetta er eiginlega eins og við séum komin aftur þar sem við byrjuðum,“ segir Reiter. Connolly er á sama máli: „Þetta er klárlega hrollvekjandi.“

Fyrsta bylgja faraldursins vorið 2020 náði að rota borgina sem annars er þekkt fyrir að sofa aldrei.

Vikum saman var eins og borgin hefði verið yfirgefin og auðar götur minntu á kvikmyndir upp úr vísindaskáldskap, þar sem einhvers konar ragnarök hafa riðið yfir.

Biðröð eftir sýnatöku.
Biðröð eftir sýnatöku. AFP

Líkhús þurftu vörubíla

Nær einu hljóðin sem heyra mátti á breiðgötum Manhattan voru sírenur sjúkrabíla, á sama tíma og sjúkrahús voru yfirfull og líkhús þurftu að kalla á vörubíla með kælibúnaði til að geta tekið á móti fjölda fórnarlamba veirunnar.

Síðan þá hafa að minnsta kosti 34 þúsund látist af beinum völdum veirunnar og borgin, sér í lagi Manhattan, hefur enn ekki náð að endurheimta lífið og orkuna sem einkenndi hana fyrir komu faraldursins.

Óvænt og hröð dreifing Ómíkron-afbrigðisins hefur vakið miklar áhyggjur víða í Bandaríkjunum. Forsetinn Joe Biden varaði á fimmtudag við að fram undan væri „vetur alvarlegra veikinda og dauða“ fyrir þá óbólusettu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert