Móðir í Fíladelfíu í Bandaríkjunum eignaðist barn í septembermánuði sem talið er vera fyrsta „Teslu-barnið“. Barnið fæddi hún nefnilega í framsæti rafmagnsbílsins á meðan hann keyrði á sjálfstýringu.
Hin nýbakaða móðir heitir Yiran Sherry en hún var föst í umferðarteppu með eiginmanni sínum Keating Sherry þegar hún missti vatnið. Voru þau á leið með þriggja ára gamlan son sinn í leikskóla.
Þegar samdrættir Yiran jukust hratt og þau komust varla áfram í umferðinni áttaði parið sig á því að þau myndu ekki komast á spítala í tæka tíð.
Keating setti bílinn þá á sjálfstýringu á spítalann sem var í um 20 mínútna fjarlægð. Í samtali við Philadelphia Inquirer sagði Keating að hann hefði einungis haft aðra hönd lauslega á stýrinu á meðan hann reyndi að aðstoða eiginkonu sína.
„Hún kreisti hönd mína svo fast að ég hélt að hún myndi brjóta hana,“ sagði Keating. „Ég sagði henni að einbeita sér að andardrættinum, en það var ekki bara ráð til hennar heldur líka til mín.“
Yiran sagði að ákvörðunin um það hvort hún ætti að reyna að bíða með að fæða þangað til þau næðu á spítalann hefði verið virkilega erfið. Þegar hún sá að þau væru varla að hreyfast í umferðarteppunni ákvað hún að hún skyldi ekki reyna að halda aftur af fæðingunni.
Yiran fæddi svo stúlku á sama tíma og þau Keating renndu í hlað á spítalanum. Yiran reyndist hafa fætt heilbrigt barn og aðstoðuðu starfsmenn spítalans þau við eftirmálana. Á spítalanum kíktu hjúkrunarfræðingar ítrekað inn til hennar til þess að sjá „Teslu-barnið.“
„Þeir spurðu, ert þú sú sem fæddir barnið í bílnum?“ sagði Yiran.
Keating er þakklátur fólkinu á bak við Teslu í dag. „Ég sendi þakkir til verkfræðinganna hjá Teslu fyrir þessa frábæru hönnun á sjálfstýringu.“
Um er að ræða jákvæða frétt fyrir Teslu sem hefur undanfarið fengið slæma útreið í fjölmiðlum vegna mögulegra öryggiságalla og illa meðferð starfsfólks, að því er Guardian greinir frá.
Fyrr í þessari viku hætti leigubílafyrirtæki í Frakklandi að nota þriðja módel Teslu eftir banvænan árekstur. Áður hafði Tesla staðið frammi fyrir lögsókn vegna bílslyss í Flórída í Bandaríkjunum þar sem unglingur lést.
Í októbermánuði var Tesla dæmd til þess að greiða 137 milljónir Bandaríkjadala, eða það sem nemur um 17 milljörðum íslenskra króna, til starfsmanns sem varð fyrir kynþáttaníði. Sömuleiðis hafa ásakanir um kynferðisbrot innan fyrirtækisins komið upp á yfirborðið að undanförnu.