Tala látinna nálgast 100 á Filippseyjum

Móðir baðar barn sitt fyrir framan rústir heimilis síns í …
Móðir baðar barn sitt fyrir framan rústir heimilis síns í Carcar-borg í Cebu á Filippseyjum í gær. AFP

Nær 100 hafa farist eftir fellibylinn Rai, þann stærsta sem gengið hefur yfir Filippseyjar á þessu ári. Þetta segir í opinberum tölum frá ríkinu en yfir 300 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín.

Flest dauðsföll hafa verið tilkynnt á eyjunni Bohol en Arhur Yap, ríkisstjóri eyjunnar greindi frá því á Facebook-síðu sinni að 63 dauðsföll væru staðfest í bæjum eyjunnar.

Tíu eru einnig látnir á Dinagat-eyjunum, að því er upplýsingafulltrúi kjördæmisins hefur staðfest við fréttastofu AFP.

Tala látinna stendur því í 99 en óttast er að fleiri séu látnir.

Rafmagnsleysi og tjón víða

Fellibylurinn skall fyrst á ferðamannaeyjunni Siargao sem nú er „algjörlega í rúst“ samkvæmt ríkisstjóra eyjunnar og í gær var greint frá því að rúmlega þrjár milljónir manna væru án rafmagns á þeim eyjum sem urðu hvað verst úti í bylnum.

Ráðist hefur verið í björgunaraðgerðir þar víða, einna helst á sunnanverðu landinu þar sem mikil úrkoma hefur leitt af sér flóðahættu. Þá hafa þök flogið af húsum í vindinum og símastaurar líka, auk þess sem margir spítalar á svæðunum eru ónothæfir sem talið er sérstaklega slæmt í ljósi kórónuveirufaraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert